Bíll brann á Seyðisfirði í nótt: Áminning um að við þurfum að bjarga okkur sjálf

Slökkvilið Múlaþings á Seyðisfirði barðist í nótt við eld sem kom upp í bíl á ferli í bænum. Slökkviliðsmenn áttu í vandræðum með að komast á slökkvistöðina. Varðstjóri segir mildi að bruninn hafi ekki verið stærri því ekki var hægt að fá aðstoð annars staðar að.

Það var um klukkan þrjú í nótt sem slökkvilið fékk tilkynningu um brennandi bíl á Seyðisfirði. Elvar Snær Kristjánsson bjó rétt hjá og var fyrstur á staðinn með slökkvitæki en aðrir slökkviliðsmenn áttu erfiðra um vik.

„Þeir áttu sumir í vandræðum að komast heiman frá sér á slökkvistöðina til að ná í bílinn okkar. Einn fór til dæmis á gönguskíðum. Bíllinn sjálfur var nógu stór og öflugur til að komast í gegnum snjóinn.

Aðstæður voru erfiðar út af snjónum, mittisdjúpur snjór í kringum bílinn og brunahanar á kafi. En verðrið vann líka með okkur því það var lygnt og snjórinn blautur þannig hann átti sinn í að kæfa eldinn.“

Sjaldnast er mikið hægt að gera þegar kviknar í bifreiðum, sama hvar þær eru, annað en verja það sem í kringum er. Í stærri eldsvoðum fær slökkviliðið á Seyðisfirði aðstoð frá Egilsstöðum en erfitt hefði verið að senda hana yfir Fjarðarheiðina sem var kolófær í nótt.

„Þetta minnir á hvað við erum einangruð hér. Við annars konar aðstæður eða stærri bruna hefðum við þurft aðstoð frá Héraði. Það hefði verið erfitt og jafnvel ómögulegt í nótt. Það hefði að minnsta kosti tekið langan tíma að ryðja fyrir slökkvibílanna. Atburðir eins og þessir minna á að við verðum að bjarga okkur sjálf á meðan ekki eru komin göng,“ segir Elvar Snær.

Bíllinn er ónýtur eftir eldsvoðann en ökumanni hans varð ekki meint af. Líklegast virðist að bíllinn hafi ofhitnað í miklum snjó sem var á götum Seyðisfjarðar í nótt.

Varðskipið Freyja kom til Seyðisfjarðar snemma í morgun og er þar til taks ef á þarf að halda.

Frá brunaútkalli á Seyðisfirði. Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.