BRAS að hefjast undir yfirskriftinni: Réttur til áhrifa

Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, BRAS, er að hefjast á ný. Sökum COVID verður hátíðin með öðru sniði í ár en í fyrra. Þannig munu viðburðir verða aðlagaðir að þeim sóttvarnareglum sem í gildi eru.

Fjallað er um hátíðina á vefsíðu Fljótsdalshéraðs. Þar segir að yfirskriftin í ár sé "Réttur til áhrifa" og byggir á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í honum segir að börn eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau. Tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

BRAS var haldin í fyrsta skipti í fyrra en ætlunin er að þróa verkefnið í þrjú til fjögur ár. Mikill tími fer í undirbúning BRAS en hátíðin er samstarfs- og samvinnuverkefni skóla og sveitarfélaga á Austurlandi auk Skólaskrifstofunnar og List fyrir Alla og margir lausir endar sem þarf að hnýta.

Verkefnisstjórn er á vegum Austurbrúar í mjög góðu og nánu samstarfi við sveitarfélög, menningarstofnanir og skólaskrifstofu Austurlands.

Markmið BRAS er m.a. að börn kynnist fjölbreyttum aðferðum listanna við skapandi vinnu. Að opna augu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu og að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar