BRAS að hefjast undir yfirskriftinni: Réttur til áhrifa
Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, BRAS, er að hefjast á ný. Sökum COVID verður hátíðin með öðru sniði í ár en í fyrra. Þannig munu viðburðir verða aðlagaðir að þeim sóttvarnareglum sem í gildi eru.Fjallað er um hátíðina á vefsíðu Fljótsdalshéraðs. Þar segir að yfirskriftin í ár sé "Réttur til áhrifa" og byggir á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í honum segir að börn eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau. Tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.
BRAS var haldin í fyrsta skipti í fyrra en ætlunin er að þróa verkefnið í þrjú til fjögur ár. Mikill tími fer í undirbúning BRAS en hátíðin er samstarfs- og samvinnuverkefni skóla og sveitarfélaga á Austurlandi auk Skólaskrifstofunnar og List fyrir Alla og margir lausir endar sem þarf að hnýta.
Verkefnisstjórn er á vegum Austurbrúar í mjög góðu og nánu samstarfi við sveitarfélög, menningarstofnanir og skólaskrifstofu Austurlands.
Markmið BRAS er m.a. að börn kynnist fjölbreyttum aðferðum listanna við skapandi vinnu. Að opna augu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu og að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna.