Búist við nokkrum aðdraganda að gosi í Öskju

Búist er við að allnokkur aðdragandi verði að eldgosi í Öskju. Engin merki eru enn um aukna eldvirkni á svæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem almannavarnir á Austurlandi sendu frá sér í morgun. Fylgst hefur verið með Öskju síðan land tók að rísa þar síðsumars 2021 og hefur almannavarnanefnd Austurlands tekið þátt í reglubundnum fundum vegna þessa með Veðurstofunni og fleirum.

Fundað var með Veðurstofunni í gær. Þar kom meðal annars fram að búist sé við að allnokkur aðdragandi verði að gosi, þar sem virkni á svæðinu aukist í einhverja daga eða vikur á undan. Ekki er þó hægt að útiloka að fyrirvarinn verði skemmri.

Þá sendir Veðurstofa Íslands vikulega frá sér upplýsingapóst til nefndarinnar og þar með sveitarfélaga á Austurlandi. Þær upplýsingar byggja meðal annars á jarðskjálfta- og aflögunarmælum sem fylgst er með allan sólarhringinn.

Í síðustu viku flugu sérfræðingar frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands yfir Öskju til að kanna bráðnun íss á Öskjuvatni. Í samantekt frá ferðinni kemur fram að þótt ekkert hafi fundist sem skýri bráðnunina beint þá hafi séu jarðskjálftar á svæðinu ekki á nokkurn hátt meiri en þeir hafa verið síðustu misseri.

Í tilkynningunni er bent á þótt ekkert bendi til gosóróa við Öskju sé hún engu að síður virk eldgoss. Í ljósi landriss og jarðhræringa sé ekki óvarlegt að íbúar, sveitarfélög og fyrirtæki séu búin undir að gos geti hafist. Þess vegna er gott að hafa til staðar rykgrímur og drykkjarvatn til nokkurra daga.

Yfir Öskju um síðustu helgi. Mynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt G. Ófeigsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar