Eilífðarverkefni að viðhalda Melarétt í Fljótsdal
„Réttin er hlaðin úr grjóti sem tekið var á sínum tíma út Bessastaðaánni og er alls ekki gott hleðslugrjót en við reynum að halda henni við og notum til þess okkar bestu menn,“ segir Þorvarður Ingimarsson, fjallskilastjóri í Fljótsdal.
Melarétt í Fljótsdal er nokkuð sérstök að því leytinu að hún er úr hlöðnu grjóti og sökum þess þarf reglulega að tjasla upp á hana því hlutar hennar gefa sig ár frá ári.
„Það þarf að huga að henni á hverju ári og taka fyrir einhvern hluta af henni því þetta aflagast og hrynur og það hrundi meira að segja þegar við vorum að reka inn. Þetta er bara ekki hentugt grjót en við reynum að halda henni við í það minnsta þá hluta [réttarinnar] sem við notum en við erum ekki að tjasla upp á þetta allt saman. Þetta er eilífðarverkefni.“
Ágætt viðtal við Þorvarð um Melarétt og réttardaginn í Fljótsdal fyrir skömmu er meðal efnis í nýjasta þætti Að austan á sjónvarpsstöðinni N4.