Ein ódýrasta fiskbúð landsins á Egilsstöðum

Kjöt- og fiskbúð Austurlands er meðal ódýrustu fiskbúða landsins samkvæmt nýlegri verðkönnun verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.

Búðin var með þriðja lægsta verðið á kílóinu af roðlausum og beinlausum ýsuflökum, næst lægsta verðið ásamt annarri búð á þorskflökum og ein með næsta lægsta á þorskrétti í sósu og plokkfiski. Þá var búðin með fjórða lægsta verðið á beinlausum laxaflökum með roði.

Hjá búðinni fengust þær upplýsingar fyrir skemmstu að verðið hefði ekki hækkað þar frá því könnunin var gerð í vor.

Í frétt ASÍ um könnunina segir að víða hafi reynst mikill verðmunur, til að mynda 107% milli ódýrustu og dýrustu rauðsprettuflakanna en oft hafi munað 1000 krónum á kílóinu.

Alls var verð kannað á 27 vöruflokkum, ferskum fiski, fiskréttum og meðlæti. Átta þeirra voru fáanlegir eystra þegar könnunin var gerð. Litla fiskbúðin Helluhrauni í Hafnarfirði var með lægsta verð í tíu flokkum og þar á eftir Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði i fjórum. Fimm fiskbúðir neituðu þátttöku í könnuninni.

Kjöt- og fiskbúð Austurlands, sem staðsett er á Austurlandi, er jafnframt eina sérhæfða fiskbúð fjórðungsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar