Engin ummerki um ísbjarnarspor þrátt fyrir mikla leit
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. okt 2024 17:12 • Uppfært 12. okt 2024 17:13
Lögreglan á Austurlandi telur sig hafa leitað af sér allan grun um að ísbirnir kunni að vera á ferð nærri Laugarfelli á Fljótsdalsheiði.
Erlendir ferðamenn tilkynntu í gær að þeir teldu sig sjá tvo ísbirni í gili nærri Kirkjufossi í Jökulsá í Fljótsdal. Gönguleið er frá gistiskálanum í Laugarfelli niður að fossinum. Ekkert fannst við leit í gær enda tekið að skyggja.
Haldið var áfram í dag með flygildi með öflugri myndavél. Spor ferðafólks voru rakin nákvæmlega og leitað á þeim stað þar sem birnirnir áttu að hafa verið. Í tilkynningu lögreglu segir að engin ummerki hafi verið þar um ísbjarnarspor, sem þó hefðu átt að blasa við ef slík dýr hefðu verið á ferðinni.4
Lögreglan hefur verið í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands við leitina. Að höfðu samráði við hana er talið fullleitað að sinni. Leit verður haldið áfram ef nýjar vísbendingar koma fram.