Fjarðarheiðin lokaðist á meðan hátt í 20 bílum var hjálpað niður

Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað laust fyrir klukkan ellefu í dag vegna bíla þar í vanda. Verkstjóri hjá Vegagerðinni segir ekki sumardekkjafæri þar.

„Það er snjóar á heiðinni en það er nokkur hiti í veginum. Við þær aðstæður límist snjórinn í veginn og myndar hálku. Við höfum verið að reyna að hálkuverja og hreinsa veginn.

Færðin er í sjálfu sér ekki slæm en það varð vandamál í Norðurbrúninni vegna illa búinna bíla. Við ákváðum að loka heiðinni meðan verið væri að ná þeim niður,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ. Vegurinn var opnaður aftur upp úr hádegi og stóð lokunin í um einn og hálfan tíma.

Norræna kom í morgun til Seyðisfjarðar og með henni bílar á sumardekkjum sem ekki voru búnir til aksturs yfir heiðina. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar frá sjónarvottum voru 17 bílar í vanda. Ferjan fer aftur á morgun en Jens segir viðbúið að Fjarðarheiði muni reynast erfið á meðan ferjan stoppar. Að sögn Jens er „ekki sumardekkjafæri“ á Fjarðarheiði.

Hálkublettir eru á Fagradal, Jökuldalsheiði, Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarði en krapi í Skjöldólfsstaðamúla og hált á Möðrudalsöræfum. Jens segir viðbúið að krapi geti myndast víða á leiðinni yfir Fjöllin eftir hádegið. Vegagerðin standi vaktina og eins sé ljóst að hreinsa þurfi fjallvegi í fyrramálið.

Séð niður í Egilsstaði úr Norðurbrún Fjarðarheiðar. Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.