Fleiri hús rýmd á Seyðisfirði
Fjögur hús í Bakkahverfi á Seyðisfirði bættust í morgun við þau hús sem rýmd hafa verið í bænum síðasta sólarhringinn. Þau hús beint undir þeim hluta leiðgarðs sem ekki er kominn í fulla hæð og því rýmt til öryggis.
Á Seyðisfirði var rýmt fjölbýlishúsið að Gilsbakka 1 auk Hamrabakka 8, 10 og 12 sem standa beint fyrir neðan það. Ofan þessara húsa er 200 kafli í varnargarði sem ekki eru komnir í þá hæð sem þeir eiga að ná. Rýmingin tekur gildi klukkan 14:00. Björgunarsveitir aðstoða við rýminguna. Fjöldahjálparmiðstöð er opin í Herðubreið á Seyðisfirði en fleiri hús voru rýmd þar.
Fjöldahjálparmiðstöð er einnig opin í Egilsbúð í Neskaupstað. Þar voru 45 heimili rýmd í gær. Í miðstöðvunum má meðal annars fá samtöl finni fólk til óöryggis í snjóflóðahættuástandinu sem enn varir á Austfjörðum. Eins er hægt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.
Tilkynningar um snjóflóð sem fallið hafa í gærkvöldi eða nótt eru farnar að berast ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands að sögn Ólivers Hilmarssonar snjóflóðasérfræðings og munu að líkindum berast áfram út daginn.
„Okkur hafa nú borist upplýsingar um flóð ofarlega í Harðskafa [í Eskifirði] en það virðist ekki hafa verið sérstaklega mikill snjór. Þá féllu líka flóð fyrir ofan byggðina í Neskaupstað. Það liggur ekki fyrir enn hvort þau féllu á keilur eða ekki en staðsetningar eru í Tröllagili, Miðstrandargili og Bræðslugjá og þau öll að stærðinni þremur sem eu bærilega stór flóð en engar tilkynningar um tjón eða vandræði.“
Flóð sem mælast 3 að stærð er flokkað sem þúsund tonna flóð sem getur grafið eða eyðilagt fólksbíl, grafið vörubíl, skemmt hús eða eyðilagt minni byggingar. Óliver segist telja líklegt að frekari tilkynningar berist um snjóflóð nú þegar birt hefur til og fólk sé á ferli þó færð sé erfið víða í fjórðungnum.
Áfram verður grannt fylgst með enda spáð meiri snjókomu síðdegis víðast hvar um Austurland en það mun aðeins standa til miðnættis eða svo. Strax í kjölfarið mun draga úr allri snjóflóðahættu.
Upplýsingar farnar að berast um snjóflóð sem fallið hafa í skjóli nætur og þar af eitt í Harðskafa fyrir ofan Eskifjörð. Sum þeirra í stærri kantinum en ekkert tjón, engin slys né teljandi vandræði hlotist af svo vitað sé. Mynd úr safni