Útgerðarmenn furða sig mikið á hárnákvæmri loðnuveiðiráðgjöf Hafró upp á 8.589 tonn

Í kjölfar síðustu loðnumælinga hefur Hafrannsóknarstofnun breytt veiðiráðgjöf sinni þessa vertíðina úr núlli í 8.589 tonn samkvæmt tilkynningu þar um sem birtist upp úr hádegi í dag. Síðar í dag gefst útgerðum færi á að spyrja sérfræðinga stofnunarinnar nánar út í veiðiráðgjöfina en magnið er næsta lítið og þessi mikla nákvæmi í tonnum talið vekur furðu margra.

Í tilkynningunni kemur fram að meira magn loðnu hafi mælst fyrir norðvestan land í febrúar en í mælingum í janúar síðastliðnum en rannsóknarskipið Árni Friðriksson og togararnir Polar Ammassak og Heimaey hafa síðustu dægrin verið í loðnumælingum síðan áttunda febrúar síðastliðinn. Ekkert fannst af fullorðinni loðnu í yfirferð togaranna norður af landinu en Árni Friðriksson fyrir vestan landið mældi rúmlega 98 þúsund tonn.

Í mælingum janúarmánaðar mældust 180 þúsund tonn austur af landinu og það með febrúarmælingu vestanlands þýðir að mæling vetrarins alls er tæplega 280 þúsund tonn. Það tæplega 40 þúsund tonnum minna en veiðistofninn var metinn í haust sem leið þegar Hafró mat hann kringum 318 þúsund tonn alls.

Einn viðmælandi Austurfréttar vegna málsins sagði nýja ráðgjöfina vissulega betri en ekkert en magnið væri engu að síður svo lítið að varla þyrfti að tala um. Magnið dygði vart í hundskjaft.

Aðspurður um nýja veiðiráðgjöfina upp á 8.589 tonn segist Daði Þorsteinsson, útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði, einnig furða sig á nákvæmninni en tekur undir með öðrum viðmælendum að umrætt magn sem ráðlagt sé að veiða skipti litlum og nánast engum sköpum fyrir þær útgerðir sem gera út á loðnuveiðar.

„Að þeir geti mælt og ráðlagt nákvæmlega þennan tonnafjölda er æði undarlegt út af fyrir sig en magnið er það lítið að það skiptir í sjálfu sér afskaplega litlu í stóru myndinni. Það eina jákvæða sem við getum tekið út úr þessu er að það eru enn dagar eftir til rannsókna og hugsanlega og vonandi er hægt að ræsa Árna Friðriksson út á ný. En í kjölfar þessa spyr ég bara eins og einn góður maður sagði eitt sinn: Hafirðu efasemdir um að telja hreindýr uppi á þurru landi eigum við þá ekki að prófa að setja bergmálsmælingu á það.“

Fátt skiptir þjóðarbúið meira máli en loðnuveiðar og þar ekki síst austanlands en nánast öll sveitarfélag í fjórðungum gera ráð fyrir góðri loðnuveiði í áætlunum sínum hvert ár. Tæp 9 þúsund tonn skipta þar litlu máli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar