
Gefa ekki upp magn loðnu sem sést úti fyrir Vestfjörðum
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er enn í loðnuleit úti fyrir Vestfjörðum. Ekkert verður gefið upp um magnið sem er þar á ferðinni fyrr en leitinni er lokið. Polar Ammassak kom aftur til Neskaupstaðar í morgun eftir að hafa lokið leit í gær.Polar, sem er í eigu grænlensks hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar, var eitt þriggja skipa sem tók þátt í leitinni. Það fór ítarlega yfir stórt svæði norður af landinu ásamt Heimaey frá Vestmannaeyjum. Lítið sem ekkert sást hjá skipunum tveimur en þau luku sínu verki um helgina.
Árni var þriðja skipið og hefur helst verið úti fyrir Vestfjörðum. Skipið er stopp vegna brælu en vonast er til að það komist aftur af stað síðar í dag þannig að hægt verði að ljúka leiðangrinum á morgun en það á nokkra smáleggi eftir.
Guðmundur J. Óskarsson, svipsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir skipið vera í loðnu á svipuðum slóðum og sást til hennar í leiðangri í janúar. Mögulegt er að þar sé ungloðna á ferð. Hann vill ekki tjá sig um magnið fyrr en búið sé að vinna úr niðurstöðum leiðangursins. Það verði reynt að gera hratt og vel.
Vitað er af loðnu á ferðinni sunnan við landið en Guðmundur segir að talið sé að það sé loðna sem fannst austan við land í leitinni í janúar. Magnið í þeirri göngu var ekki nægt til að hægt væri að gefa út byrjunarkvóta.
Síðar í vikunni skýrist hvort sú viðbótarloðna sem Árni Friðriksson er að skoða sé næg til að hægt verði að gefa út kvóta. „Við reynum að hafa hraðar hendur, meðal annars því við vitum að loðnan er komin suður fyrir land.“