Skert aðgengi að útvistarparadís við Djúpavog fer illa í heimafólkið

Seint síðasta sumar var flugvöllurinn á Djúpavogi girtur af eins og reglur um flugvelli kveða á um. Það hafði hins vegar í för með sér skert aðgengi heimafólks og gesta að einu allra vinsælasta útivistarsvæðinu nálægt bænum. Nú er leitað leiða til að ráða þar bót á.

Það illa geymt leyndarmál að einn fallegasti staðurinn á fallegu svæði Djúpavogs er biksvört sandfjaran við Langhólmann rétt austan við Djúpavogsflugvöll. Þangað hefur lengi verið nokkuð stríður straumur fólks á fallegum dögum og fólk þá gjarnan notað flugbrautina til að komast sem næst fjörunni enda spottakorn að fara.

Sú leið lokaðist þó síðasta sumar þegar umsjónaraðili vallarins, Isavia, girti völlinn af vegna öryggissjónarmiða. Eftirleiðis hefur fólk því þurft að ganga rúman einn og hálfan kílómetra til og frá til njóta fjörunnar. Það hefur farið illa ofan í marga.

„Þetta er ekki stórmál í sjálfu sér en menn eru bara vanir því að keyra þangað niðureftir eftir flugbrautinni og lagt þarna nálægt fjörunni,“ segir Eiður Ragnarsson, staðgengill sveitarstjóra á Djúpvogi. Hann segist sjálfur beggja blands hvað gera skuli við flugvallarsvæðið sem hefur lítið verið notað í áraraðir.

„Það er mjög auðvitað afar lítil umferð um þennan völl en það gerðist þó í fyrra tvívegis að þar lentu þyrlur til að fljúga skipafarþegum í útsýnisferð suður í Jökulsárlón. Þannig mætti að mínu viti nýta völlinn hugsanlega í framtíðinni að einhverju leyti þó ekki séu neinar beinar hugmyndir um slíkt. En verði vellinum lokað eru allar slíkar hugmyndir út af borðinu enda ólíklegt að hann verði þá nokkurn tímann opnaður aftur.“

Heimastjórn Djúpavogs fundaði fyrir skömmu með umhverfis- og framkvæmdastjóra Múlaþings vegna þessa máls. Þar ræddar leiðir til að tryggja aðgengi akandi vegfarenda alla leið að fjörunni en lausn liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Hinn þekkti Völustígur er einmitt staðsettur við svarta fjöruna á Djúpavogi og fyrir utan heimafólk sjálft æði margir ferðamenn sem gera sér ferð í fjöruna. Mynd Eiður Ragnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.