Hópsýking á þorrablóti í Brúarási

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) vinna að því að rekja uppruna matarsýkingar sem kom upp á þorrablóti í Brúarási á laugardagskvöld. Yfir 20 manns hafa tilkynnt veikindi.

Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, segir að þorrablótsnefndin hafi í gær tilkynnt grun um hópsýkingu. Strax hafi verið farið til þess aðila sem sá um veitingar á blótinu og tekin sýni af matnum til að setja í ræktun. Einhverja daga tekur að fá niðurstöðurnar.

Eins var farið yfir verkferla og aðstæður hjá veitingaaðilanum. Fundað verður aftur með honum í dag.

HSA sendi í morgun frá sér beiðni til fólks um að láta vita ef það kenndi sér meins eftir blótið. Hægt er að gera það í gegnum vefform hjá embætti landlæknis. Þetta er gert til að kanna umfang sýkingarinnar. Minnst 25 tilfelli hafa verið tilkynnt. HSA safnar einnig sýnum frá einstaklingum sem síðar verða borin saman við matarsýnin.

Í færslu HSA segir að ekki sé enn vitað til þess að neinn hafi veikst alvarlega. Lára segir að þau tilfelli sem vitað sé um lýsi sér í snörpum en skammvinnum veikindum. Fólk hafi veikst um 10-12 tímum eftir borðhald en flestir verið búnir að jafna sig um hádegi í gær.

Lára segir veikindin flokkuð sem hópsýkingu. Það snýst ekki um fjöldann, heldur aðstæður þar sem hætta er á að margir veikist. Í tilkynningu HSA segir að unnið sé að rakningu í góðri samvinnu við alla hluteigandi og er þeim þakkað fyrir ábyrgð og aðstoð.

Skammt er síðan matarbornar sýkingar komu upp á tveimur þorrablótum á Suðurlandi. Tilkynningum um slíkar sýkingar hefur fjölgað mjög síðustu mánuði. Í samtali við Heimildina um helgina sagði sérgreinalæknir hjá Matvælastofnun að ekki væri víst að sýkingunum væri að fjölga en samfélagið væri sannarlega orðið meðvitaðra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.