Glæsileg hátíðardagskrá á 10 ára afmæli Alcoa Fjarðaál
Alcoa Fjarðaál fagnar 10 ára starfsafmæli sínu á laugardaginn. Að sögn Dagmarar Ýrar Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa álversins er eftirvæntingin orðin mikil fyrir hátíðarhöldunum.„Við erum búin að leggja mjög mikið í það að gera þessa afmælishátíð eftirminnilega. Ein ástæða þess að dagskráin er svona glæsileg er að starfsmannafélagið okkar, Sómi, er með okkur í að halda upp á afmælið. Fjölskyldudagskráin í álverinu er í þeirra boði og það verða engin börn svikin af þeirri skemmtun“, segir Dagmar Ýr um hátíðina á laugardaginn. Meðal þeirra sem troða upp á hátíðarsvæði í álverinu eru: Leikhópurinn Lotta, Söngvaborg og Sirkus Ísland, þá mun Eiríkur Fjalar vera kynnir. „Um kvöldið verða svo stórtónleikar fyrir alla fjölskylduna á Reyðarfirði en þar munu bæði heimamenn og landsþekktir skemmtikraftar koma fram eins og Emmsjé Gauti og Helgi Björns. Við endum svo hátíðarhöldin á flugeldasýningu,“ segir Dagmar Ýr, spennt fyrir helginni og vonast hún til að sjá sem flesta.
Hátíðarhöldin hefjast kl. 11:00 inn á álverslóð og hefst fjölskyldudagskráin kl 12:00. Stórtónleikarnir hefjast 19:30 og lýkur þessu svo öllu með flugeldasýningu.
Hér má fá nálgast upplýsingar um viðburðinn.