Hafna því að hafa hundsað tilmæli bæjaryfirvalda

Stjórnendur Grunnskóla Reyðarfjarðar hafna því að þeir hafi ekki framfylgt fyrirmælum frá fræðslunefnd Fjarðabyggðar frá í haust um að undirbúa akstur grunnskólabarna í skólasund í nágrannabyggðum. Þeir hafi brugðist við um leið og ljóst varð að ekki yrði hægt að kenna sund á Reyðarfirði í vor.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu skólastjórnenda sem þeir sendu Austurfrétt í kjölfar ummæla sem Pálína Margeirsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og foreldri nemanda við skólann, lét falla í umræðum um ástand sundlaugarinnar á Reyðarfirði á bæjarstjórnarfundi fyrir viku.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá sagði Pálína að stjórnendur skólans hefðu ekki farið eftir bókun fræðslunefndar frá í ágúst að finna aðrar lausnir á sundkennslu ef ekki tækist að gera við laugina í tíma. Þá sagðist hún ekki getað sætt sig við það sem foreldri að barn hennar gæti ekki lokið sundnámi því skólastjórnendur hefðu hundsað fyrirmæli.

Í yfirlýsingu skólastjórnendanna er því hafnað að þeir hafi nokkru sinni hundsað fyrirmæli frá bæjaryfirvöldum. Hið rétta sé að þeir, í samvinnu við fræðslustjóra Fjarðabyggðar, hafi ákveðið að bregðast við bókun fræðslunefndar í ágúst með að kenna íþróttir í ágúst og september í Fjarðabyggðarhöllinni, en ekki íþróttahúsinu, til að framkvæmdasvið gæti metið skemmdir og hafið viðgerðir á sundlauginni.

Hún er undir gólfi íþróttahússins sem er tekið af meðan sund er kennt. Lauginni var lokað og hún tæmd í lok maí eftir tilmæli Heilbrigðiseftirlits Austurlands þar sem málningaragnir höfðu flagnað upp úr henni og voru í vatninu.

Gólfið var sett yfir laugina um mánaðarmótin september/október og hafði þá hluti laugarkerfisins verið hreinsaður og múrverktakti fenginn til að skoða laugina. Í yfirlýsingu skólastjórnenda er bent á að í lok janúar hafi framkvæmdasvið skilað bæjarráði minnisblaði þar sem umfang viðgerðar og kostnaður hafi verið metin.

Tveimur vikum síðar hafi komið greining frá múrverktakanum um að ekki dygði að fara í smærri viðgerðir á lauginni. Þar með hafi orðið ljóst að ekki yrði ekki hægt að gera við laugina í vetur.

Þá hafi fræðslustjóri og skólastjórnendur lokið við aksturstöflu og breytt stundaskrám þannig að hægt væri að leita tilboða í akstur í sundkennslu í sundlauginni á Eskifirði.

„Skólastjórnendur hafa því aldrei hundsað fyrirmæli bæjaryfirvalda og gengu hratt og örugglega í verkið þegar ljóst var að ekki næðist að gera við Sundlaugina á Reyðarfirði fyrir vorið,“ segir í yfirlýsingunni.

Mynd: Fjarðabyggð


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar