Hálf akreinin af á um 50 metra kafla í Staðarskriðum

Miklar skemmdir urðu í Staðarskriðum í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í síðustu viku. Versta skemmdin er á um 50 metra kafla þar sem hálfur vegurinn er af. Minni skemmdir urðu víðar í vegakerfinu. Verkstjóri hjá Vegagerðinni lýsir áhyggjum af ræsum sem komin eru á tíma.

Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru til að skoða aðstæður í Staðarskriðunum, sem eru yst í norðanverðum Fáskrúðsfirði en veginum var lokað fyrir viku eftir að skemmdanna varð vart.

Hinrik Þór Einarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði, segir að um hálf akreinin sé farin af veginum á um 50 metra kafla þar sem mestu skemmdirnar séu. Ljóst sé að töluverð viðgerð sé framundan því fylla þarf upp í gatið þar sem efni hefur sópast fram í sjó. Til viðbótar verði trúlega reynt að skera veginn inn í hlíðina, líkt og gert var með leiðina út á Dalatanga eftir skemmdir sem urðu þar í vatnsveðrið haustið 2023.

Jafnvel ekki hægt að laga fyrr en í vor


Vegurinn í ysta gilinu í Staðarskriðunum virðist hafa skemmst úr tveimur áttum. Skriða virðist hafa fallið á hann úr gilinu með aur inn á efri akreinina en hrifið stóran hluta hinnar með sér. „Þetta er töluvert af efni sem hefur komið niður annars vegar og hins vegar farið niður í sjó. Það er skrýtið að horfa á þetta.

Hinrik segir áform að fylla upp í gatið við tækifæri en óvíst hvenær það verði. „Það er enn snjór og klaki á svæðinu sem þarf að fá að sjatna fyrst. Það getur verið að það verði ekkert gert fyrr en í vor.“

Skemmdir eru víðar í Staðarskriðunum. Að sögn Hinriks hafa ýmist aurskriður eða krapaflóð fallið úr flestum giljum þar. „Það hefur komið töluvert niður úr þeim.“

Víða skemmdir eftir óveðrin


Ofsaveður gekk yfir Austurland í síðustu viku, bæði með miklu hvassviðri og úrhelli. Þess vegna eru bæði fok- og vatnsskemmdir á vegum á austfirskum vegum. Nokkrum dögum fyrr urðu einnig skemmdir í leysingum. Unnið hefur verið að viðgerðum síðustu daga og eru þeim að mestu lokið í bili.

Á nokkrum stöðum eru enn eftir frekari viðgerðir. Við Sævarenda í sunnanverðum Fáskrúðsfirði stendur til að skipta um ræsi en það er þar stíflaðist í krapaflóði. Flestar skemmdirnar verða þannig að aur- eða krapaflóð koma niður lækjarfarvegi, stífla ræsi áður en vatn streymir áfram niður og grefur úr vegum.

Gömul ræsi varasöm


En Hinrik bendir líka á að víða á Austfjörðum séu ræsi sem komin eru til ára sinna og farin að gefa eftir. Slíkir veikleikar hafi komið í ljós á nokkrum stöðum í óveðrunum. Ræsin eru yfirleitt járnhólkar sem með tímanum ryðga í botninn. Þegar það gerist fer vatnið að grafa sig niður úr þeim þannig los kemur á þá. Þegar vatnsflaumur skellur á slíku ræsi sópar hann því einfaldlega með sér.

„Þetta vekur mann til umhugsunar um ástandið. Við höfum til að mynda verið að lagfæra og skipta út ræsum í Breiðdal síðustu ár en þetta er endalaus vinna,“ segir hann.

Mynd: Vegagerðin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.