
Hálf akreinin af á um 50 metra kafla í Staðarskriðum
Miklar skemmdir urðu í Staðarskriðum í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í síðustu viku. Versta skemmdin er á um 50 metra kafla þar sem hálfur vegurinn er af. Minni skemmdir urðu víðar í vegakerfinu. Verkstjóri hjá Vegagerðinni lýsir áhyggjum af ræsum sem komin eru á tíma.Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru til að skoða aðstæður í Staðarskriðunum, sem eru yst í norðanverðum Fáskrúðsfirði en veginum var lokað fyrir viku eftir að skemmdanna varð vart.
Hinrik Þór Einarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði, segir að um hálf akreinin sé farin af veginum á um 50 metra kafla þar sem mestu skemmdirnar séu. Ljóst sé að töluverð viðgerð sé framundan því fylla þarf upp í gatið þar sem efni hefur sópast fram í sjó. Til viðbótar verði trúlega reynt að skera veginn inn í hlíðina, líkt og gert var með leiðina út á Dalatanga eftir skemmdir sem urðu þar í vatnsveðrið haustið 2023.
Jafnvel ekki hægt að laga fyrr en í vor
Vegurinn í ysta gilinu í Staðarskriðunum virðist hafa skemmst úr tveimur áttum. Skriða virðist hafa fallið á hann úr gilinu með aur inn á efri akreinina en hrifið stóran hluta hinnar með sér. „Þetta er töluvert af efni sem hefur komið niður annars vegar og hins vegar farið niður í sjó. Það er skrýtið að horfa á þetta.
Hinrik segir áform að fylla upp í gatið við tækifæri en óvíst hvenær það verði. „Það er enn snjór og klaki á svæðinu sem þarf að fá að sjatna fyrst. Það getur verið að það verði ekkert gert fyrr en í vor.“
Skemmdir eru víðar í Staðarskriðunum. Að sögn Hinriks hafa ýmist aurskriður eða krapaflóð fallið úr flestum giljum þar. „Það hefur komið töluvert niður úr þeim.“
Víða skemmdir eftir óveðrin
Ofsaveður gekk yfir Austurland í síðustu viku, bæði með miklu hvassviðri og úrhelli. Þess vegna eru bæði fok- og vatnsskemmdir á vegum á austfirskum vegum. Nokkrum dögum fyrr urðu einnig skemmdir í leysingum. Unnið hefur verið að viðgerðum síðustu daga og eru þeim að mestu lokið í bili.
Á nokkrum stöðum eru enn eftir frekari viðgerðir. Við Sævarenda í sunnanverðum Fáskrúðsfirði stendur til að skipta um ræsi en það er þar stíflaðist í krapaflóði. Flestar skemmdirnar verða þannig að aur- eða krapaflóð koma niður lækjarfarvegi, stífla ræsi áður en vatn streymir áfram niður og grefur úr vegum.
Gömul ræsi varasöm
En Hinrik bendir líka á að víða á Austfjörðum séu ræsi sem komin eru til ára sinna og farin að gefa eftir. Slíkir veikleikar hafi komið í ljós á nokkrum stöðum í óveðrunum. Ræsin eru yfirleitt járnhólkar sem með tímanum ryðga í botninn. Þegar það gerist fer vatnið að grafa sig niður úr þeim þannig los kemur á þá. Þegar vatnsflaumur skellur á slíku ræsi sópar hann því einfaldlega með sér.
„Þetta vekur mann til umhugsunar um ástandið. Við höfum til að mynda verið að lagfæra og skipta út ræsum í Breiðdal síðustu ár en þetta er endalaus vinna,“ segir hann.
Mynd: Vegagerðin