
Þarf líka að skýra lagaleg atriði sem snúa að hættulegum einstaklingum
Starfshópur sjö ráðuneyta hefur undanfarna mánuði unnið að því að koma með tillögur sem leysa vanda jarðarsettra einstaklinga í samfélaginu sem jafnvel telja öðrum hættulegir. Heilbrigðisráðherra segir mál þeirra forgangsmál hjá nýrri ríkisstjórn.Tillögur starfshópsins voru á dagskrá á einum af fyrstu fundum nýrrar ríkisstjórnar sem og á einum af síðustu fundum fyrri ríkisstjórnar. Voveifleg mál, á borð við tvöfalt manndráp í Neskaupstað í ágúst, áttu þátt í að hrinda vinnunni af stað.
Aðalmeðferð málsins úr Neskaupstað fór fram í vikunni. Við lok hennar sögðu bæði saksóknari og verjandi að það sýndi að nauðsynlegt væri að taka málefni einstaklinga með alvarlegan geðrænan vanda fastari tökum.
Austurglugginn og Morgunblaðið greindu fyrir viku frá því að heimilt hefði verið samkvæmt nauðungarvistunarúrskurði, að halda þeim ákærða, Alfreð Erling Þórðarsyni, í vistun þegar morðin voru framin. Úrskurðurinn féll 6. júní en hann var samt útskrifaður 20. júní.
Alfreð Erling bíður nú dóms en geðlæknir sem vann geðmat á honum sagði fyrir dómi að aldrei hefði hvarflað að honum að Alfreð Erling væri sakhæfur. Úrræðið sem hefur verið á borði ríkisstjórnarinnar snýr þó einkum að einstaklingum sem annað hvort hafa lokið fangelsisvist án teljandi betrunar eða verið dæmdir ósakhæfir.
Vinna sem nýtur forgangs
Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segir málið frá Norðfirði, sýna þörfina á slíku úrræði. „Þetta er flókið mál, því það þarf að skilgreina hvernig þjónustu við getum veitt þessum einstaklingum en líka að skýra lögfræðileg atriði upp á það hvaða úrræðum er hægt að beita. Þetta er hópur einstaklinga sem eru taldir hættulegir. Vinnan er í forgangi og það á bæði að vinna þetta hratt og það á að gera þetta allt vel.
Þetta er mál sem snertir velferð og mannréttindi þessara einstaklinga og snertir öryggi borgaranna. En þetta eru kostnaðarsöm úrræði og með því að horfa á málin heildstætt þá má best tryggja hagkvæmnissjónarmið,“ segir hún.
Fréttin er unnin í samstarfi Austurgluggans og Morgunblaðsins.