Harðfiskurinn frá Sporði á marga aðdáendur

Harðfiskurinn frá Sporði hefur í gegnum árin eignast aðdáendur víða um land. Árið 2019 fluttist framleiðslan frá Eskifirði til Borgarfjarðar eystra þar sem hún hefur byggst áfram upp.

Harðfiskverkunin rekur upphaf sitt aftur til ársins 1952 til fiskihjalla á Eskifirði. Þar héldu menn sig allar götur við aðra verkun en víða annars staðar, að fiskur sem væri frystur við vægara frost en hefð var fyrir yrði bæði sætari og bragðmeiri en hefðbundinn harðfiskur.

Þegar fréttir bárust af því að til stæði að hætta starfsemi keyptu hjónin Helga Björg Eiríksdóttir og Kári Borgar Ásgrímsson á Borgarfirði starfsemina og fluttu hana yfir. Börn þeirra, Óttar Már og Steinunn, leiða framleiðsluna í dag.

Fjölskyldan hefur þegar farið í töluverðar fjárfestingar síðan þá og til dæmis keypt glænýja, öfluga skurðarvél upp á fleiri milljónir króna.

Steinunn segir að reksturinn og vörusala hafi verið á uppleið frá því að fyrirtækið var keypt. Svo vel gangi að á köflum sé erfitt að uppfylla allar pantanir sem berist.

„Við erum hérna oftast nær fjögur að vinna hér fulla vinnu og allt gengur þetta vel. Salan er veruleg og þó við séum kannski ekki mikið í stórverslunum þá eru aðilar á borð við N1 og Olís dugleg að kaupa af okkur. Langmest salan er að sumarlagi og stundum fer nærri að við náum ekki að vinna upp í allar pantanir, en þetta hefur þó blessast hingað til.“

Hjá Sporði er aðeins framleiddur bitafiskur og eru þar eingöngu ýsubitar og steinbítsbitar og ávallt er roðið með. „Salan hefur aukist jafnt og þétt í steinbítnum. Við vinnum hann aðeins öðruvísi en aðrir og hann þykir aðeins feitari en almennt gerist. Sumum finnst það frábært en öðrum ekki eins og gengur.“

Hver sem er getur bankað upp á í vinnslunni og fengið keyptan fisk hjá Sporði og töluvert er um slíkt að sögn Steinunnar. „Það fer ekkert á milli mála að við eigum allmarga aðdáendur og sumir koma langt að til okkar sem er ótrúlega gaman.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.