Háskólanám staðfest á Hallormsstað í haust
Fulltrúar Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla undirrituðu á föstudag samstarfssamning við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sem felur það í sér að námsbraut skólans í skapandi sjálfbærni verði á háskólastigi frá og með næsta hausti á ábyrgð HÍ. Þreifingar eru hafnar um uppbyggingu nemendagarða á Hallormsstað.Samningurinn sem undirritaður var á föstudag á sér nokkurn aðdraganda. Í nóvember 2023 undirrituðu sömu aðilar viljayfirlýsingu um að stefna að þessu skrefi. Unnið hefur verið að því síðan en samningurinn nú felur í sér endanlega útfærslu á rekstri og ábyrgð á námsleiðinni.
Hvað gerir hvor skóli?
Háskóli Íslands ber faglega ábyrgð á náminu sem verður á vegum Deildar faggreinakennslu við Menntavísindasvið HÍ. Undir það fellur meðal annars ábyrgð á kennslu, námsefni og námsmati, eftirlit og umsjón með inntöku nemenda og námsframvindu þeirra, ráðning akademískra starfsmanna sem og brautskráning nemenda, með sama hætti og á við um allt nám á vegum skólans.
Hlutverk Hallormsstaðaskóla er umsýsla í tengslum við framkvæmd námsins. Í því felst að Hallormsstaðaskóli leggur til kennsluaðstöðu og vinnuaðstöðu fyrir kennara og nemendur vegna námsins og annast þjónustu við nemendur og kennara á staðnum.
Fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi
Samningurinn markar að mörgu leyti tímamót því þetta verður fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi. Til þessa hefur háskólanám á svæðinu verið fjarkennt. Frá og með næsta hausti munu nemendur innritast í HÍ en stunda nám á Hallormsstað. Samningurinn er um þróunarverkefni til tveggja ára með möguleika á framlengingu.
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir starf Hallormsstaðaskóla og mjög ánægjulegt að sjá þetta einstaka nám verða hluta af námsframboði Háskóla Íslands. Nemendur fá nú tækifæri til að nýta námið bæði sem grunn að frekara háskólanámi og sem sjálfstæða diplómu,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla í tilkynningu.
Háskóli Íslands þjóni landinu öllu
Þar er líka haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, að samningurinn og námið á Hallormsstað sé í takt við stefnu skólans sem kveði á um skyldur til að þjóna landinu öllu. Þar segir einnig að markið samningsins sé að efla háskólanám og rannsóknir á Austurlandi og styrkja hlutverk Háskóla Íslands sem háskóla allra landsmanna.
„Það er mikið gleðiefni að samningar hafa formlega verið undirritaðir um nám í skapandi sjálfbærni. Málið hefur verið undirbúið afar vel í góðu samstarfi við stjórnvöld og Hallormstaðaskóla. Háskólaráð Háskóla Íslands hefur formlega samþykkt námsleiðina og því er afar ánægjulegt að geta boðið upp á námið frá og með næsta skólaári.
Þetta fyrsta staðbundna háskólanám á Austurlandi er sannarlega í takt við stefnu Háskóla Íslands sem meðal annars kveður á um að þjóna landinu öllu og leggja okkar af mörkum til menntunar á sviði sjálfbærni. Við hlökkum því til spennandi samstarfs við Hallormsstaðaskóla á næstu árum,“ segir hann.
„Samstarf Hallormsstaðaskóla og Háskóla Íslands markar tímamót í menntun á Austurlandi og sögu Hallormsstaðaskóla. Með því að færa nám í Hallormsstaðaskóla upp á háskólastig er byggt á traustum grunni öflugs starfs skólans frá upphafi og skapaður vettvangur fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu. Þetta er stórt skref fram á við og mikilvæg lyftistöng fyrir menntun og þróun á Austurlandi, þar sem um er að ræða fyrsta staðbundna háskólanám svæðisins,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður stjórnar Hallormsstaðaskóla þar ennfremur.
Skoða nemendagarða
Í samtali við Austurfrétt segir hann að eftir áramótin hefjist formlegur undirbúningur. Það feli í sér að undirbúa námið, starfsmannamál, tölvukerfi, markaðsmál og húsnæðismál. „Það er ansi mikil vinna framundan til að tryggja að upphaf námsins haustið 2025 takist vel,“ segir hann.
Bjartsýni ríkir um að það að námið verði metið til háskólaeininga auki aðsókn. Ragnar segir að undanfarin ár hafi þurft að hafna nemendum og von sé um að geta allt að tvöfaldað nemendafjöldann. Slíkt krefst húsnæðis og byrjað er að skoða byggingu nemendagarða á Hallormsstað.
„Við höfum verið í óformlegum viðræðum við Múlaþing varðandi uppbyggingu stúdentagarða. Fyrst um sinn þurfum við að leita allra möguleika við að nýta þær íbúðir sem eru á svæðinu. Sú vinna er þegar hafin.“
Forstöðumaður í stað skólameistara
Fleiri breytingar eru í farvatninu á Hallormsstað þar sem Bryndís mun eftir áramótin láta af starfi skólameistara til að taka við framkvæmdastjórastöðu Austurbrúar. Ragnar segir að þar sem HÍ beri ábyrgð á náminu verði leitað eftir forstöðumanni Hallormsstaðaskóla. Stefnt sé að tímabundinni ráðningu með möguleika á framlengingu. Leitin sé nú að hefjast þar sem ekkert hafi hægt að gera fyrr en samningurinn um háskólanámið væri í höfn.
Frá undirritun samkomulagsins í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu á föstudag. Frá vinstri: Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ragnar Sigurðsson, formaður stjórnar Hallormsstaðaskóla, og Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla. Mynd: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.