
Lækurinn litar Lónið
Fjarðará og Lónið á Seyðisfirði hafa í morgun borið áberandi brúnan lit, eins og stundum vill verða í rigningum. Liturinn kemur úr einum læk í Suðurhlíð fjarðarins sem fellur Fjarðarána sem rennur í gegnum bæinn.
„Í vatnavöxtum koma þar niður lækjarsprænur sem maður sér annars ekki. Einn af þeim byltir sér niður niður hlíðina með sterkum mórauðum lit og þótt lækurinn sé ekki stór þá litar hann ána og Lónið,“ segir Jón Halldór Guðmundsson, íbúi á Seyðisfirði.
Lækurinn kom fram bæði á laugardag og aftur í morgun en í hægviðrinu í gær varð allt tært á ný. „Það tekur nokkra tíma fyrir ána og Lónið að hreinsa sig.“
Þetta er ekki einsdæmi því Jón Halldór segist hafa séð til lækjarins eins lengi og hann hafi búið á Seyðisfirði enda sé hann kallaður Rauði lækur. „Þetta gerist í ákveðinni austan eða norðaustanátt þegar rigning fylgir með.“
Hann veit hins vegar ekki hvaðan liturinn kemur. „Þetta gæti verið lítil skriða sem er á hreyfingum í rigningum frekar eða rautt moldarflag efst í hlíðinni.“
Talsverð rigning var eystra í nótt, mest á Norðfirði og Dalatanga, en úrkoman á hvorum stað er yfir 40 mm frá miðnætti.
Mynd: Jón Halldór Guðmundsson