Skip to main content

Leita af sér allan grun um ísbirni við Laugarfell

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. okt 2024 11:17Uppfært 12. okt 2024 11:18

Lögreglan á Austurlandi hefur að nýju hafið leit að ísbjörnum sem tilkynnt var um að væru á ferli við Laugarfell á Fljótsdalsheiði í gær. Engin ummerki fundust þá um dýrin.


Erlendir ferðamenn tilkynntu um klukkan fjögur í gær um tvo ísbirni í nágrenni Kirkjufoss í Jökulsá í Fljótsdal. Lögreglumenn fóru á svæðið en fundu ekki önnur spor en eftir ferðamennina. Einnig var farið yfir myndir úr myndavélum Landsvirkjunar á svæðinu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið og notaðist við nætursjónauka. Ekki fundust heldur neinar vísbendingar við þá leit. Til stóð að þyrlan færi aftur af stað í birtingu í dag en hún er ekki tiltæk.

Þess vegna verður í dag notast við flygildi. Sérstaklega er horft til þess hvort för sjáist í snjó eða hjarni á þeim slóðum sem birnirnir áttu að hafa sést. Endanleg niðurstaða ætti að liggja fyrir síðar í dag.

Í Laugarfelli er rekin ferðaþjónusta á sumrin en henni var lokað um mánaðarmót og skálinn yfirgefinn í vikunni.