Mikill snjór og fljúgandi hálka á Fjarðarheiðinni í nótt

Mikill snjór, fljúgandi hálka og lélegt skyggni var á Fjarðarheiði í nótt að sögn manns sem fór til hjálpar ferðalöngum þar en komst sjálfur í þann krappann. Björgunarsveitir fylgdu ferðalöngum til byggða.

„Sonur minn var á ferðinni og festi sig á bakvið annan bíl. Ég fór og ætlaði að draga hann upp en minn bíll fór út af líka. Þetta endaði með því að björgunarsveitin þurfti að koma og ná í okkur alla,“ segir Davíð Kristinsson, íbúi á Seyðisfirði og hótelstjóri á Hótel Öldunni.

Hann segir lítið ferðaveður hafa verið á heiðinni þegar atgangurinn stóð þar yfir milli klukkan eitt og þrjú í nótt.

„Það var fljúgandi hálka, mikill snjór og lítið skyggni. Snjórinn náði upp á miðja felgu á bílnum. Á köflum voru komnir góðir skaflar,“ segir hann um aðstæður.

Davíð segir að bílarnir þrír sem hann og hans fólk hafi verið á hafi verið skildir eftir uppi á heiðinni. Björgunarsveitir sem kallaðar hafi verið út hafi fylgt fleiri ferðalöngum yfir Fjarðarheiðina í nótt.

„Ég hefði viljað hafa heiðina lokaða fyrst hún var ekki þjónustuð lengur en til klukkan tíu. Hún var ekki fær fyrir bíla á einu drifi,“ segir Davíð en kort Vegagerðarinnar frá þessum tíma gefa til kynna að á heiðinni séu hálkublettir.

Af Fjarðarheiði í nótt. Mynd: Davíð Kristinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.