
Morðin í Neskaupstað sýna að búa verður betur að geðheilbrigðismálum
Saksóknari í máli ríkisins gegn Alfreð Erling Þórðarsyni, sem ákærður er fyrir að hafa ráðið eldri hjónum í Neskaupstað bana í ágúst, beindi spjótum sínum að því hvernig geðheilbrigðismálum í landinu í lokaræði sinni fyrir dómi. Greinilegt sé að þar hafi verið mjög veikur maður á ferð. Arnþrúður ítrekaði þó að ákæruvaldið héldi aðalkröfu sinni um fangelsisdóm til streitu og fór fram á litið yrði til þess að málið væri einstakt í íslenskri réttarsögu.„Það er ótækt að þurfa að takast á við mál eins og þetta. Það dylst engum sem verið hefur hér að ákærði á við mjög mikil veikindi að stríða.
Hann var tekinn með hníf í mjög slæmu ástandi í maí í fyrra og í skýrslutöku þá kom í ljós að hann hafði miklar ranghugmyndir. Í kjölfarið var hann nauðungarvistaður.
Hér eru tvö mannslíf alltof dýri verði keypt. Við áttum okkur ekki á hversu dýr þau eru fyrir þeim sem standa fólkinu næst.
Það verður að draga af þessu lærdóm og hlúa betur að geðheilbrigðismálum í landinu. Þetta er nokkuð sem má ekki endurtaka sig.“
Á þessa leið voru lokaorð Arnþrúðar Þórarinsdóttur, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara sem flutt hefur mál ákæruvaldsins gegn Alfreð Erling, 46 ára gömlum Norðfirðingi, sem ákærður er fyrir að hafa í ágúst myrt hjónin Björgvin Ólaf Sveinsson og Rósu G. Benediktsdóttur að heimili þeirra í Neskaupstað.
Heimild til nauðungarvistunar þegar morðin voru framin
Eldri nauðungarvistunardómar eru meðal gagna málsins. Austurglugginn og Morgunblaðið greindu frá því fyrir viku að samkvæmt dómi í júní 2024 var heimild til að halda Alfreð Erling nauðugum á geðdeild í 12 vikur eða fram til 29. ágúst en morðin voru framin 21. ágúst. Honum var gefið frelsi um mánaðamótin júlí/ágúst. Geðlækir, sem blöðin ræddu við, sagði plássleysi á geðdeild skapa pressu til að útskrifa sjúklinga sem fyrst.
Alfreð Erling var nauðungarvistaður í kjölfar atviks í miðbæ Egilsstaða þann 12. maí í fyrra þar sem hann ógnaði almenningi og lögreglu með stórum hníf. Hann taldi lögregluna þátttakanda í samsæri um að ráða sig af dögum. Sama dag kviknaði í húsnæði Austurljóss. Lögreglan rannsakar íkveikju en samkvæmt heimildum beinist grunurinn að Alfreð Erling. Í febrúar í fyrra kveikti hann í búð sinni.
Aðalmeðferð málsins hófst á mánudag og lauk í dag með málflutningi sækjanda og verjanda. Arnþrúður sagði margt benda til að Alfreð Erling hefði verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum á verknaðarstundu og ætti því að teljast ósakhæfur. Með því yrði hann vistaður á réttargeðdeild. Arnþrúður sagði Alfreð Erling „hreinnlega hættulegan“ og alvarleika brotanna „eitthvað sem við höfum ekki séð áður.“
Allt sem bendir til ákærða
Slík vistun er varakrafa ákæruvaldsins sem hélt aðalkröfu sinni um fangelsisvist til streitu í lokaorðunum. Farið er fram á að lágmarki 16 ára fangelsi.
Arnþrúður sagði skýringar Alfreðs á komu hans á heimilið ekki halda vatni. Alfreð tjáði sig ekki fyrir dóminum og greinargerð hans er ekki enn opinber en samkvæmt lýsingum Arnþrúðar sagðist hann hafa komið að hjónunum látnum. Skóför Alfreðs hefðu meðal annars fundist á vettvang og blóð úr fólkinu á skóm, buxum og jakka hans. „Það er ekki eitt heldur allt sem púslast saman í að ákærði hafi verið þarna á vettvangi.“
Hann er talinn hafa ráðið þeim bana með hamarshöggum og hamar með blóði þeirra látnu fannst í fórum hans við handtöku. Þá sést Alfreð huga að einhverju sem virðist nokkuð greinilega hamar í klæðum sínum á öryggismyndavélum. Hann gaf þær skýringar að hjónin hefðu notað hamarinn hvort á annað eða „sá sem var ráðinn í verkið“ hefði átt hann. Slíkar skýringar passa engan vegin við sönnunargögn en Alfreð hefur bæði í þessi máli og áður talað um hvernig guðlegar verur og púkar stjórni honum. DNA-greiningar sýndu ekki fram á að neinir aðrir hefðu verið á vettvangi.
Arnþrúður sagði að ekki væri orða hlutina öðruvísi en fólkið hefði verið „tekið af lífi með hrottalegum hætti.“ Að hann sjáist þreifa á hamrinum áður en hann fari inn í húsið sé merki um ásetning á hæsta stigi, sem og hvernig gengið sé til verks. „Það er sjaldan sem það sést með svo beinum hætti. Þetta voru eldri hjón á heimili sínu, sínum griðastað og áttu sér væntanlega einskis ills von.“ Þar með ætti ákærði sér engar málsbætur.
Dómsins að meta sakhæfi
Arnþrúður sagði það dómsins að ákveða endanlega hvort Alfreð Erling teldist sakhæfur en svo yrði bæri að líta til þess að þyngja refsinguna frá því 16 ára fangelsi sem algengt er fyrir manndráp. Í þessu tilfelli sé um að ræða tvöfalt manndráp. Því sé eðlilegt að krefjast að minnsta kosti 20 ára fangelsis, ef ekki ævilangs.
Sem fyrr segir benti Arnþrúður á að bæði lögreglumenn og geðlæknar, sem ræddu við Alfreð Erling fyrst eftir verknaðinn, hafi vitnað um miklar ranghugmyndir enda lét dómkvaddur matsmaður, geðlæknir, strax færa hann úr gæsluvarðhaldi og á réttargeðdeild. Sá geðlæknir sagði fyrir dóminum að í sínum huga væri enginn vafi á að Alfreð Erling væri ósakhæfur.
Fréttin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurfréttar