Öryggi á hafnarsvæði LVF bætt til muna

Búið er að bæta til muna allt öryggi á hafnarsvæði Loðnuvinnslunnar (LVF).  Hófst sú vinna s.l vor undir stjórn öryggisstjóra LVF, Arnfríðar Eide. Hún ásamt öryggisnefnd og stjórnendum gerðu ítarlega greiningu á hvar fyrirtækið gæti gert betur á þessu sviði. 


Þetta kemur fram á vefsíðu LVF. Þar segir að víðsvegar hafi verið settir upp umferðarspeglar, annars vegar þar sem blint var fyrir ökumenn og hins vegar á staði þar sem bílstjórar fá betri sýn við að bakka að byggingum þegar verið er að ferma og afferma.

„Mikið af yfirborðsmerkingum voru settar upp líkt og gangbrautir og gönguleiðir. Þá voru bílastæðin skilgreind betur sem og stopp merkingar,“ segir á vefsíðunni, „ Einnig hafa varúðarskilti verið sett upp við hafnarsvæðið þar sem skírt er kveðið á um að óviðkomandi sé bannaður aðgangur. Eru þau aðvörunarorð bæði á íslensku og ensku.“

Þá kemur fram að fast við hafnarsvæði Loðnuvinnslunnar stendur Fosshótel Austfirðir. Þeir ferðalangar sem gista það glæsilega hótel hafa verið gjarnir á að fá sér göngu á hafnarsvæðinu, enda margt forvitnilegt fyrir ókunnuga að sjá, um leið og menn gera sér ekki grein fyrir hættunum sem þar kunna að leynast. 

"Nú þegar merkingar hafa verið settar upp láta gestir, sem og heimamenn, sér nægja að horfa yfir svæðið.  Þá hefur óþarfa bílaumferð um svæðið nánast horfið. Allt vísbendingar um að fólk virðir merkingarnar og er það vel,“ segir á vefsíðunni.

„Starfsfólk er mjög ánægt með þessa vinnu og finnur árangurinn í störfum sínum. Hægt er að aka lyfturum og öðrum tækjum um svæðið af meira öryggi. 

Við fögnum því mjög að fólk virði merkingarnar og biðlum áfram til allra að gera slíkt hið sama. Öll viljum við koma heil heim eftir vinnudaginn, hvort heldur er á líkama eða sál.“

Einnig segir að undanfarin ár hefur töluverð vinna farið í að auka öryggi starfsfólks með því að áhættugreina hverja deild ásamt því að áhættugreina einstakar vélar aukalega. Í kjölfarið hefur slysum farið fækkandi og síðast liðið ár voru aðeins minniháttar atvik sem komu upp.

Mynd: lvf.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar