Reynt að halda götum færum eins lengi og kostur er á kjördag
Sveitarfélögin á Austurlandi og Vegagerðin hafa bæði eigin tæki og verktaka reiðubúin til að halda vegasamgöngum gangandi eins og kostur er á kjördag. Íbúar eru þó hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum.Veðurstofan gaf í dag út gula viðvörun fyrir Austfirði sem gildir frá föstudagskvöldi og svo að segja allan þann tíma sem kjörstaðir eiga að vera opnir á laugardag. Í þetta hefur stefnt alla vikuna og því hefur viðbragð verið skipulagt.
Loftur Þór Jónsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að búið sé að ræða stöðuna innan Vegagerðarinnar á landsvísu en mestar líkur séu á vandræðum á Austurlandi. Fundað verður með svæðis- og þjónustustjórum eftir hádegi á morgun og þar teknar nákvæmari ákvarðanir um hvað verður gert.
Vopnafjörður
Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, segir að búið sé að setja alla mokstursverktaka, sem sveitarfélagið hefur samning við og þjónustumiðstöð hreppsins í viðbragðsstöðu til að reyna að halda opnu eins og mögulegt er um helgina, bæði innan bæjar og í sveitunum. Þar var spáð snjókomu í dag en það hefur ekki enn gengið eftir heldur verið froststilla.
Kosið verður í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju. Kjörfundur hefst klukkan 10 og stendur til 18. Er það tveimur tímum skemur en vanalega á Vopnafirði.
Fjarðabyggð
Í Fjarðabyggð var í dag verið að setja upp áætlanir um mokstur bæði í þéttbýli og til sveita, til móts við Vegagerðina. Stefnt er að því að halda götum opnum eins lengi og mögulegt er. Íbúar eru beðnir um að sýna fyrirhyggju, svo sem með að nýta sér möguleika til að kjósa utankjörfundar, og fylgjast með tilkynningum á heimasíðu og samfélagsmiðlum Fjarðabyggðar.
Auglýstur kjörfundur á Sólbrekku í Mjóafirði er frá 9-14 en frá 9-22 í Nesskóla í Neskaupstað, Eskifjarðarkirkju, safnaðarheimilinu á Reyðarfirði og grunnskólunum á Fáskrúðsfiðri, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.
Múlaþing
Múlaþing hefur hvatt íbúa, einkum til sveita, til að kjósa utankjörfundar. Það er hægt að gera á sýsluskrifstofunum á Seyðisfirði og Egilsstöðum en einnig á skrifstofum sveitarfélagsins á Borgarfirði og Djúpavogi. Vegna veðurspárinnar var í dag ákveðið að lengja opnunartímann á Borgarfirði og Djúpavogi á morgun, þar verður opið frá 8:30 til 14:00 á hvorum stað. Áhaldahús sveitarfélagsins eru reiðubúni að halda vegum í þéttbýli opnum eins og hægt verður á laugardag en til sveita verður rutt í samstarfi við Vegagerðina.
Á Borgarfirði er kosið á hreppsskrifstofunni frá 9-17, á Djúpavogi í Tryggvabúð frá 10-18, á Seyðisfirði í íþróttahúsinu frá 9-20 og á Fljótsdalshéraði í Menntaskólanum á Egilsstöðum frá 9-22.
Fljótsdalshreppur
Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal, sagði að miðað við veðurspá væru ekki miklar áhyggjur af snjókomu og þar með ófærð innansveitar. Ef þarf verður kallaður til mokstur þannig íbúar komist á kjörstað. Stærra vandamál gæti orðið að koma kjörkössunum til Egilsstaða, þaðan sem þeir verða væntanlega sendir áfram á talningarstað á Akureyri. Það er hins vegar á ábyrgð annarra en sveitarfélagsins.
Fljótsdælingar kjósa í félagsheimilinu Végarði og stendur kjörfundur þar frá 10-18.
Mynd: Unnar Erlingsson