Rýma svæðið sem snjóflóðin féllu á 2023

Ákveðið hefur verið að rýma íbúðarhús á svæðinu sem varð fyrir snjóflóðunum í Neskaupstað í lok mars árið 2023. Fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð í Neskaupstað.

Óvissustigi almannavarna vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á hádegi á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Dagsbirtan verður notuð til að rýma hús þar. Ástæðan er spá um mikla snjókomu, allt að 300 mm til fjalla fram til þriðjudags. Í Neskaupstað verða þrír reitir rýmdir og fjórir á Seyðisfirði.

Í Neskaupstað er í fyrsta lagi um að ræða reit NE 18, en á því svæði eru 37 íbúðir. Í grófum dráttum er um að ræða svæðið sem snjóflóðin að morgni 27. mars féllu á árið 2023, og nær yfir Starmýri, Gauksmýri, Valsmýri, Hrafnsmýri, Nesbakka og Víðimýri.

Þá er rýmt svæðið inn á Strönd, reitir NE01 og NE02. Það er atvinnusvæðið sem teygir sig frá innri enda byggðarinnar í Neskaupstað og inn á og fyrir ofan athafnasvæði Síldarvinnslunnar.

Nánari upplýsingar um rýmingarreitina eru í rafrænu rýmingarkorti í kortasjá Fjarðabyggðar. Þá má sjá með að velja „skipulag“ og „rýmingarsvæði.“

Fjöldahjálparstöð verður opnuð í Egilsbúð kl. 13:00 í dag. Íbúar af rýmingarsvæðum eru hvattir til að mæta þangað og láta vita af sér eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Björgunarsveitir ganga í hús og leiðbeina um rýmingu. Stefnt er að því að henni verði lokið fyrir klukkan 16:00 því klukkan 18:00 tekur hættustig gildi.

Áfram verður miðlað upplýsingum um stöðuna í dag í gegnum Facebook-síður og heimasíður lögreglunnar á Austurlandi, almannavarna, Múlaþings og Fjarðabyggðar auk hefðbundinna fjölmiðla, meðal annars Austurfréttar.

Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar