Saga og Snorri koma austur um helgina

Hjónin Saga Garðarsdóttir og Snorri Helgason munu um Austurlandi standa fyrir skemmtunum á Eskifirði og Seyðisfirði. Saga segist hlakka til að koma á heimaslóðir en hún var í mörg sumur sem barn á Eskifirði.

„Þetta er jómfrúarferð okkar Snorra saman austur. Dagskráin er svipuð og þegar við komum fram saman víða um land í sumar.

Hann byrjar á að spila eitthvað af sínum lögum í um 40 mínútur en hann var að gefa út plötu nýverið. Síðan er hlé og eftir það tek ég við og grína. Ég er með það besta úr nýrri sýningu sem ég sýni í Bæjarbíói í Hafnarfirði,“ segir Saga.

Þau koma fram í Herðubreið á Seyðisfirði annað kvöld klukkan 20:00 en í Valhöll á Eskifirði á laugardag klukkan 21:00. Klukkan þrjú á laugardag standa þau fyrir barnaballi í Valhöll.

„Snorri gaf fyrir nokkrum árum út barnaplötu og bók og á henni fékk ég að syngja besta lagið, Kringlubörnin. Við höfum síðan haldið nokkur barnaböll í bænum. Þar tökum við nokkur góð lög af plötunni og önnur skemmtileg krakkalög eins og „Hókí pókí“ og „Höfuð, herðar, hné og tær“ þar sem við reynum að fá krakkana til að syngja og dansa með.“

Saga er ekki ókunnug Eskifirði þar sem dvaldi gjarnan á sumrin sem barn. „Ég heimsótti oft ömmusystur mína, Sigrúnu Sigurðardóttur og hann Hilmar Bjarnason. Ég á því margar góðar minningar af þessu svæði. Ég lærði að skíða í Oddsskarði hjá Hermanni Sveinbjörnssyni.

Ég man líka eftir að pabbi týndi veskinu sínu í Vöðlavík. Við þurftum að ráfa upp og niður fjallið í leit að því. Hver veit nema ég geri lokaatlögu að því að finna það núna?!

En vegna þessa lít ég á mig sem smá Eskfirðing og hlakka til að sýna Snorra mínar heimaslóðir.“

Hún segist þó ekkert sérstaklega hafa sniðið uppistandið sitt að Austfjörðum. „Mér finnst langskemmtilegast að gera grín að Snorra, síðan ættingjum mínum og öðru fólki sem stendur mér nærri. Ég hef líka gaman af að gera grín að Íslendingum almennt en ég held að þá skipti ekki máli hvort þeir búi á Eskifirði eða við Reykjavíkurtjörn.“

Utan þess að heimsækja Austfirði stendur Saga nú í krefjandi verkefni sem aðalhöfundur Áramótaskaupsins. „Við erum langt komin með það því upptökur eru í nóvember. Þess vegna er þessi ferð frábært tækifæri fyrir Austfirðinga til að gauka að mér því sem þeir vilja sjá í skaupinu. Við sem erum í kringum það erum öll úr Reykjavík og það skiptir máli að fólk komi sínum sjónarmiðum á framfæri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar