Skrefin þung inn í skólann eftir að verkföll voru dæmd ólögleg

Tæplega 50 kennarar við Egilsstaðaskóla afhentu sveitarstjórn Múlaþings við upphaf fundar hennar í dag áskorun um að þrýsta á gerð kjarasamnings milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands við.

„Kennarar skora á ykkur að beita ykkur fyrir að gengið verði án tafar frá samningum við kennara. Sem aðilar að Sambandi íslenskra sveitarfélaga berið þið ábyrgð á að taka ákvörðun um að kæra verkfallsaðgerðir kennara, frekar en eyða orku og fjármagni í að ljúka gerð samninga.

Slíkar aðgerðir grafa undan þeim rétti sem félagsfólk Kennarasambands Íslands hefur til verkfalls þegar illa gengur að semja um kaup og kjör. Kennarar við Egilsstaðaskóla tóku þá ákvörðun að samþykkja að fara í verkfall ekki af léttúð, það voru þung skref. En skrefin inn í skólann aftur síðastliðinn mánudagsmorgun, þegar búið var að dæma verkfallið ólöglegt, voru enn þyngri,“ sagði Berglind Karlsdóttir sem las upp áskorunina fyrir hönd kennara.

Kennarar við skólann mættu margir hverjir í fundarsal sveitarstjórnar við upphaf fundar hennar eftir hádegi. Þeir voru í verkfalli í síðustu viku en mættu aftur til vinnu á mánudag, margir svartklæddir, eftir að verkföllum voru dæmd ólögleg. Félagsdómur taldi ekki heimilt að boða verkföll í stökum skólum innan sveitarfélaga, því þeir væru ekki vinnuveitendur heldur sveitarfélögin.

Berglind sagði kröfur kennara skýrar, að staðið yrði við loforð um jöfnun launa milli almenna markaðarins og opinberra starfsmanna frá árinu 2016. Hún bætti við að tafir á því leiddu til þess að stór hluti menntaðra kennara sæi hag sínum betur borgið í öðrum störfum sem leiddi til þess að ekki væri hægt að fullmanna kennarastöður. Það gæti reynst dýrt í framtíðinni.

Hún sagði sveitarfélögin hafa ítrekað leitað leiða til að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir, frekar en reyna að efna gefin loforð og semja.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, veitti undirskriftunum viðtök. Hún þakkaði kennurum fyrir komuna og sagði sveitarstjórn sannarlega kunna að meta þeirra störf. Hún lýsti vonum um að samið yrði sem fyrst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.