Stór meirihluti Austfirðinga vill aukna orkuöflun

Stór meirihluti Austfirðinga virðist á þeirri skoðun að mjög eða fremur miklu máli skipti að afla aukinnar orku á Íslandi en nú er til staðar. Litlu færri hafa sterka skoðun á hvort vindorkuframleiðsla til framtíðar eigi að vera í höndum opinberra aðila eða einkaaðila.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Maskína framkvæmdi um land allt í lok ágúst og hvers niðurstöður voru birtar nýverið.

Könnun þessi var að stórum hluta bundin við skoðanir fólks á vindorkuveri við Búrfellslund neðan við Sultartangastíflu í Rangárþingi ytra en þar stendur til að reisa 30 vindmyllur á 17 ferkílómetra svæði fyrir lok árs 2026 sem yrði þar með fyrsta stóra vindorkuverið sem rís í landinu. Sléttur helmingur svarenda af Austurlandi var mjög eða fremur hlynntur vindorkuveri á þeim stað.

Tveimur almennari spurningum var þó varpað fyrir þátttakendur sem voru í heildina 1.049 talsins um land allt. Sú fyrri var hversu miklu máli fólk teldi þörfina á aukinni orkuöflun á landsvísu. Svör af Austurlandi ótvíræð því 73,5% svarenda sögðu það skipta mjög miklu eða fremur miklu máli meðan um 11% sögðu að skipta litlu sem engu. Rúm 15% sögðu þörfina í meðallagi.

Þátttakendur voru jafnframt spurður út í hvort máli skipti hvort vindorkuframleiðsla í landinu væri almennt í höndum opinberra aðila, svo sem Landsvirkjunar, eða einkaðila. Svörin þar einnig nokkuð ótvíræð en tæplega 66% svarenda af Austurlandi sögðu skipta mjög eða fremur miklu máli að hið opinbera fari með þau mál. Tæplega 11% svarenda sögðu það skipta litlu sem engu máli.

Teikning Landsvirkjunar af vindorkuverinu sem koma skal upp í Búrfellslundi. Verið á að vera komið í gagnið í lok árs 2026.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.