Talinn hættulegur og vistaður á öryggisgeðdeild í gæsluvarðhaldi

Karlmaður á fimmtugsaldri, sem grunaður er um að hafa banað eldri hjónum í Neskaupstað, sætir vistun á öryggisgeðdeild meðan hann er í gæsluvarðhaldi. Dómari tekur undir að maðurinn sé hættulegur samfélagi sínu enda telja geðlæknar hann stjórnast af alvarlegu geðrofi. Hann neitaði sök við handtöku.

Þetta kemur fram í dómi Landsréttar, sem í gær staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maðurinn skuli vera í gæsluvarðhaldi fram til 20. desember.

Maðurinn hefur verið í varðhaldi síðan hann var handtekinn 22. ágúst. Frá 6. september hefur hann verið vistaður á öryggisgeðdeild, fremur en í fangelsi. Hann áfrýjaði fyrir viku í fyrsta sinn slíkum úrskurði og fór fram á að vistunin yrði fellt úr gildi eða stytt.

Skýringar mannsins ótrúverðugar


Í dóminum kemur fram að um klukkan hálf eitt þann 22. ágúst hafi lögreglu borist tilkynning um að hjón hafi fundist látin inni á baðherbergi og á þeim miklir áverkar. Eins að sést hafi til hins handtekna við húsið kvöldið áður og skömmu síðar hafi heyrst úr því þungt bank. Vitni hafi reynt að hringja í hjónin en virst slökkt á síma þeirra og bíll þeirra ekki heima.

Í ljós kom að bíllinn stefndi til Reykjavíkur og grunaði var undir stýri. Sérsveit lögreglunnar handtók hann syðra. Storknað blóð var á fötum hans og skóm og með ýmsa muni hjónanna á sér. Hann neitaði sök við fyrstu skýrslutöku, kannaðist við að hafa verið í húsinu sagðist hafa komið að hjónunum í þessu ástandi þannig einhver annar hefði ráðist á þau. Skýringar hans á bílferðinni sem öðru eru yfirstrikaðar í dóminum en dómari lýsir þeim sem ótrúverðugum.

Stjórnast af alvarlegu geðrofi


Samkvæmt íslenskum lögum má almennt ekki halda einstaklingum lengur í varðhaldi en í 12 vikur, án þess að gefin sé út ákæra. Sá frestur rann út um miðjan nóvember. Í lögunum er þó heimild til að halda einstaklingum lengur sé sterkur grunur fyrir hendi að þeir hafi gerst sekir um brot sem varði meira en 10 ára fangelsi, eða ef varðhald er nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Eins er undanþága í lögum til að úrskurða einstaklinga til vistunar á stofnun allt þar til dómur fellur.

Í dóminum er vísað til mats geðlæknis sem telur manninn stjórnast af alvarlegu geðrofi sem geri hann hættulegan öðrum. Vegna veikindanna, sem lýst er sem langvinnum og inngrónum, sé hann hættulegur öðru fólki. Brýnt sé að tryggja að ekki skapist hætta af honum og til þess þurfi að vista hann á viðeigandi stofnum þar sem hann fái sérhæfða meðferð til lengri tíma.

Dómari tekur undir að sterkur grunur sé um að hann hafi banað hjónunum og með því sé uppfyllt skilyrði um grun um brot sem varði meira en 10 ára fangelsi. Þá sé mikilvæg að tryggja að hætta stafi ekki af honum í samfélaginu.

Enn beðið eftir niðurstöðu rannsókna


Dómari tekur þó fram að það sem eftir er af rannsókninni sé ekki þess eðlis að maðurinn geti torveldað rannsókn málsins. Fram kemur að lífsýni séu nýkomin en beðið eftir niðurstöðum krufningar og blóðferlarannsóknar. Þær verði bornar undir manninn þegar þær liggi fyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar