![](/images/stories/news/folk/berglind_harpa_abru_22_web.jpg)
Þakklát fyrir vinnuframlag Jónu Árnýjar
Berglind Harpa Svavarsdóttir, stjórnarformaður Austurbrúar og Sambands austfirskra sveitarfélaga, segir stjórnir félaganna samgleðjast Jónu Árnýju Þórðardóttur, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Austurbrúar og SSA hefur verið valin nýr bæjarstjóri Fjarðabyggðar.„Það var stjórnarfundur hjá Austurbrú og SSA samkvæmt áætlun í gær. Þar bar Jóna Árný þetta upp. Við vorum hissa en samhuga í að samgleðjast henni,“ segir Berglind Harpa.
Tilkynnt var um ráðningu Jónu Árnýjar seinni partinn í gær en á mánudagsmorgun tilkynnti Jón Björn Hákonarson að hann ætlaði að hætta sem bæjarstjóri um næstu mánaðamót.
Ekki er enn fyllilega ljóst hvenær Jóna Árný hefur störf hjá Fjarðabyggð en Berglind Harpa segir stjórnir Austurbrúar og SSA ákveðnar í að umskiptin gangi sem liprast fyrir sig. „Við vorum ákveðin í að mæta henni sem fyrst en í vönduðum skrefum. Hún mun starfa hjá Austurbrú fram að þeim tíma.“
Stjórnir Austurbrúar og SSA eru skipaðar sömu einstaklingunum frá sveitarfélögunum fjórum á Austurlandi nema að hjá Austurbrú bætast við tveir fulltrúar, annar frá atvinnulífi, hinn af háskólasviðinu. Jóna Árný hefur verið framkvæmdastjóri Austurbrúar frá 2014 en nokkur misseri eru síðan staða framkvæmdastjóra SSA var sameinuð framkvæmdastjóra Austurbrúar.
Berglind Harpa segir Jónu Árnýju hafa unnið gott starf fyrir Austurbrú á þessum tíma. „Við vitum að hún hefur unnið virkilega gott starf. Því er öllum mikið þakklæti í huga þegar hugsað er til hennar og hennar vinnuframlags. En svona er lífið, hún hefur verið lengi hjá Austurbrú og fær síðan þetta tilboð.“
Ekki náðist að klára þau atriði sem á dagskrá fundanna voru í gær en framhaldsfundur verður á föstudag. Berglind Harpa segir að þó hafi verið ákveðið að staða framkvæmdastjórans yrði auglýst. „Það var samhugur um það. Það er mikilvægt að fá inn öflugan einstakling sem fyrst. Við höldum áfram með það á föstudag.“
Mynd: Austurbrú