Þarf að kortleggja urðunarstaði riðufjár
Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur farið þess á leit við Matvælastofnun að hún kortleggi hvar dýr, sem lógað hefur verið vegna riðu og annarra sjúkdóma, eru grafin í fjórðungnum.Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð HAUST. Þar greinir frá því að nýlega hafi komið í ljós að framkvæmdaleyfi vegna malarnáms í Norðfjarðarsveit hafi verið gefið út í næsta nágrenni urðunarstaðar riðufjár frá árinu 1987.
Eftir vettvangsferð var niðurstaðan sú að ekki væri hætta á ferðum ef malarnámið færi ekki nær urðunarstaðnum en nú er. Engar upplýsingar um staðsetningu hans voru til hjá Matvælastofnun heldur fengust þær með aðstoð heimamanna sem komu að urðuninni á sínum tíma.
Þess vegna beinir HAUST því til Matvælastofnunar að taka saman upplýsingar um urðunarstaði á starfssvæði nefndarinnar sem allra fyrst. Talið er mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir og urðunarstaðirnir verðir tilgreindir í aðalskipulagi sveitarfélaga.