Þorvaldur Þórðarson nýr formaður Breiðdalsseturs

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræði og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn nýr formaður Breiðdalsseturs.

Þetta var gert á aðalfundi setursins sem fram fór síðasta laugardag í tengslum við árlegt málþing. Þorvaldur hefur að undanförnu orðið landsmönnum góðkunnugur sem einn helsti sérfræðingurinn um gosið á Reykjanesi. Hann tekur við af Hákoni Hanssyni, sem verið hefur formaður setursins frá 2014.

Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, gekk einnig úr stjórninni en hann hefur setið í henni frá stofnun. Í hans stað kemur Ari Páll Kristinsson, málfræðingur og rannsóknaprófessor tilnefndur af Árnastofnun. Þá situr Jón Björn Hákonarson áfram í stjórninni sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Breytingar urðu á starfi Breiðdalsseturs á síðasta starfsári þar með samningi setursins við Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands um Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík með áherslu á jarðfræði og málvísindi.

Af erindum á málþinginu um helgina má nefna að Snæbjörn Guðmundsson frá Náttúruminjasafni Íslands sagði frá steinasafni og sýningu sem safnið hyggst setja upp á Breiðdalsvík og Robert Askew frá Náttúrufræðistofnun fjallaði um Borkjarnasafn stofnunarinnar. Nýi stjórnarformaðurinn sagði frá eldgosinu í Geldingadölum og sýndi meðal annars myndir sem ekki hafa sést áður. Forstöðumaður Breiðdalsseturs, Tobias Weisenberger, sagði frá rannsóknum sem hann hefur tekið þátt í í Surtsey.

Þá kom Unnur Birna Karlsdóttir frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Egilsstöðum og sagði frá rannsóknarleiðöngrum dr. Emmy M. Todtman norðan Vatnajökuls um miðja 20. öld meðan Soffía Auður Birgisdóttir mætti frá setrinu á Höfn og ræddi fagurfræði í verkum Þorbergs Þórðarsonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.