
Þorvaldur Þórðarson nýr formaður Breiðdalsseturs
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræði og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn nýr formaður Breiðdalsseturs.Þetta var gert á aðalfundi setursins sem fram fór síðasta laugardag í tengslum við árlegt málþing. Þorvaldur hefur að undanförnu orðið landsmönnum góðkunnugur sem einn helsti sérfræðingurinn um gosið á Reykjanesi. Hann tekur við af Hákoni Hanssyni, sem verið hefur formaður setursins frá 2014.
Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, gekk einnig úr stjórninni en hann hefur setið í henni frá stofnun. Í hans stað kemur Ari Páll Kristinsson, málfræðingur og rannsóknaprófessor tilnefndur af Árnastofnun. Þá situr Jón Björn Hákonarson áfram í stjórninni sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Breytingar urðu á starfi Breiðdalsseturs á síðasta starfsári þar með samningi setursins við Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands um Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík með áherslu á jarðfræði og málvísindi.
Af erindum á málþinginu um helgina má nefna að Snæbjörn Guðmundsson frá Náttúruminjasafni Íslands sagði frá steinasafni og sýningu sem safnið hyggst setja upp á Breiðdalsvík og Robert Askew frá Náttúrufræðistofnun fjallaði um Borkjarnasafn stofnunarinnar. Nýi stjórnarformaðurinn sagði frá eldgosinu í Geldingadölum og sýndi meðal annars myndir sem ekki hafa sést áður. Forstöðumaður Breiðdalsseturs, Tobias Weisenberger, sagði frá rannsóknum sem hann hefur tekið þátt í í Surtsey.
Þá kom Unnur Birna Karlsdóttir frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Egilsstöðum og sagði frá rannsóknarleiðöngrum dr. Emmy M. Todtman norðan Vatnajökuls um miðja 20. öld meðan Soffía Auður Birgisdóttir mætti frá setrinu á Höfn og ræddi fagurfræði í verkum Þorbergs Þórðarsonar.