Umboðsmaður Alþingis kallar eftir gögnum um sölu Rafveitu Reyðarfjarðar

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar um hvernig staðið var að sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar í lok síðasta árs. Á þessu stigi er beiðninni ætlað að safna upplýsingum um ráðstöfun sveitarfélaga á eignum almennt frekar en beinlínis sölunni sjálfri.

Í bréfi umboðsmanns, sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í morgun, kemur fram að einstaklingur hafi kvartað til embættisins vegna söluferlisins á þeim forsendum að ferlið hafi verið lokað og engum öðrum en Rarik og Orkusölunni verið veittur kostur á viðræðum.

Umboðsmaður skrifar að beiðni hans um gögn snúi ekki að sölunni sjálfri. Ekki er útilokað að hún verði til frekari athugunar síðar en um það verði tilkynnt. Beiðnin sé meðal annars sett fram í tilefni af athugun á öðrum málun, en umboðsmaður hefur um nokkurt skeið staðið fyrir frumkvæðisathugun á grundvelli jafnræðisreglna á meðferð og ráðstöfun eignarhluta sveitarfélaga.

Umboðsmaður tilgreinir þó að það hafi verið almenn afstaða hans, nema sérstök sjónarmið mæli gegn því, að sveitarfélög auglýsi opinberlega fyrirhugaða úthlutun gæða sem eftirspurn kunni að vera eftir og hafi umtalsverða fjárhagslega þýðingu fyrir hlutaðeigandi, þannig að allir þeir sem kunni að hafa áhuga geti látið hann í ljós.

Umboðsmaður fer því fram á að bæjarstjórn veiti upplýsingar um einstakar ákvarðanir við undirbúning sölunnar, þar með talið hvernig kauptilboða hafi verið aflað og viðsemjendur valdir. Þá óskar umboðsmaður eftir skýringu á því hvernig það samrýmist grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um jafnræði að salan hafi ekki verið auglýst opinberlega.

Farið er fram á að upplýsingum um einstakar ákvarðanir um samningsgerð, hvernig afstaða hafi verið tekin til kauptilboða og ákvarðanir um hvar trúnaður skyldi ríkja í ferlinu.

Vildu halda Rafveitunni í opinberri eigu

Bæjarstjórn Reyðarfjarðar ákvað á fundi sínum þann 17. desember að selja Rafveituna til Rarik og Orkusölunnar fyrir samanlagt 570 milljónir króna. Á fundinum kom fram að árið 2016 hefði sú stefna verið mörkuð að leita eftir viðræðum við opinbera aðila ef til Rafveitan yrði seld. Málið var opinberað tæpri viku fyrr þegar það var tekið fyrir í bæjastjórn. Fram að því höfðu málefni Rafveitunnar verið bókuð sem trúnaðarmál á fundum bæjarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn sölunni þar sem þeir vildu kanna nánar áhuga Íslenskrar orkumiðlunar sem sendi bæjarráði kvöldið áður og gaf til kynna að hún væri tilbúin að greiða hærra verð en Orkusalan fyrir smásöluhluta Rafveitunnar.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku þó undir að rétt væri að selja Rafveituna þar sem rekstrarforsendur hennar væru brostnar eftir að Landsvirkjun sagði upp samningi um orkukaup og umsýslu fyrir Rafveituna, sem kaupir nær allt það rafmagn sem hún selur áfram til Reyðfirðinga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar