Varað við hálku og hálkublettum víða um Austurland

Hálkuviðvaranir hafa þegar verið gefnar út af hálfu Vegagerðarinnar á fjölda vega inn til landsins og ekki síður á fjallvegum fjórðungsins. Í það mun bæta í nótt enda gerir spá ráð fyrir snjókomu um tíma og frosti víðast hvar.

Hálka eða hálkublettir finnast nú þegar á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Breiðdalsheiði, Vatnsskarði og Fagradal auk þess sem fjallvegurinn um Hellisheiði eystri er orðin þungfær. Þá er og hálka á veginum inn í Mjóafjörð.

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir að hitastig fari niður fyrir frostmark víða eftir miðnætti í kvöld og alveg niður í tveggja stiga frost í byggð á stöku stöðum í nótt svo gera má ráð fyrir meiri hálku víða en þegar er orðið. Að sama skapi á að snjóa nokkuð á Úthéraði og við Vopna- og Borgarfjörð um tíma í nótt.

Helgarspáin gerir ráð fyrir tiltölulega köldu veðri alls staðar á morgun laugardag og hitastig nær hvergi mikið yfir þrjú til fjögur stigin. Það bætir aðeins í hitann á sunnudag þegar hámarkshitatölur verða kringum fimm stigin á láglendi en því fylgir töluverð rigning lunga dagsins.

Skjáskot úr vefmyndavél Vegagerðarinnar í Vatnsskarði klukkan 14.30 í dag. Hálka víða og aðeins farið að fenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.