Vilja að fóðurprammar verði færðir inn í íslenska skipaskrá
Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að fóðurprammar, sem notaðir eru í fiskeldi hérlendis, verði færðir inn í íslenska skipaskrá. Viðbætur sem smíðaðar voru á fóðurprammann Muninn sem sökk í Reyðarfirði í byrjun árs 2021 virðast hafa átt stóran þátt í að pramminn sökk.Rannsóknanefndin lauk upphaflega rannsókn sinni á tildrögum óhappsins í byrjun árs 2022. Pramminn var þá enn á sjávarbotni þar sem ekki þótti rétt að fara í þær miklu aðgerðir sem þurfti til að lyfta honum upp fyrr en hlé yrði gert á eldi á svæðinu.
Nefndin áskildi sér þá rétt til að taka málið upp aftur ef nýjar upplýsingar kæmu fram. Þær komu í ljós þegar honum var lyft upp haustið 2022 en nefndin skilaði nýverið af sér uppfærðri skýrslu. Samkvæmt nýju rannsóknaskýrslunni reyndist ljósavél prammans hafa verið stækkuð úr 20 kW í 160 kW, tveimur fóðurbásum bætt við á milliþilfari og pallur smíðaður á stjórnborðssíðu.
Ekki er hægt að slá föstu hvers vegna pramminn sökk en yfirgnæfandi líkur eru á mikil ísing hafi hlaðist á prammann í óveðri sem gekk yfir Austurland 9. og 10. janúar 2021. Pramminn sökk að morgni sunnudagsins tíunda. Í hönnunargögnum prammans segir að honum sé mest hætta búin þegar ísing myndist aðallega á annarri hlið hans.
Í upphaflegu atvikaskýrslunni var bent á að Muninn væri ekki skráður hér því hann væri ekki sem skip heldur fóðurprammi og því ekki skráningarskyldur. Það þýðir að starfsmenn viðkomandi fyrirtækis, í þessu tilfelli Laxa, hafi eftirlit með fóðurprömmum samkvæmt verklagsreglum fyrirtækisins og framleiðanda þess en pramminn var smíðaður í Noregi árið 2017.
Þess vegna leggur rannsóknanefndin til við Samgöngustofu að prammar verði færðir inn í íslenska skipaskrá, samkvæmt ákvæði í skipalögum um að skip sé „sérhvert fljótandi far nema annars sé getið.“
Í rannsóknarskýrslunni frá 2022 segir að engin mengun hafi borist frá prammanum vegna atviksins.