„Viljum forðast í lengstu lög að fresta kjörfundi“

Engir mælikvarðar eru til um hversu vont veður þarf að verða til að kjörfundi eða talningu úr Alþingiskosningum sé frestað. Framkvæmdastjóri landskjörstjórnar segir á hreinu að líf fólks verði ekki lagt í hættu á kjördag. Fundað er reglulega með Vegagerð og Veðurstofu og fleiri aðilum um hvað geti gerst á laugardag.

„Við höfum mestar áhyggjur af því hvort fólk komist á kjörstað til að kjósa og það á helst við um Norðausturkjördæmi,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar.

Spáð er talsverðri snjókomu á Austurlandi, strax annað kvöld og fram eftir laugardegi. Einkum þegar líður á bætir svo í vind þannig líkur eru á ófærð, jafnvel innanbæjar. Síðdegis í dag var gefin út gul viðvörun fyrir Austfirði sem gildir nær allan þann tíma sem kjörstaðir geta verið opnir.

Bylurinn hefur verið fyrirsjáanlegur í vikunni og hefur tíminn því verið nýttur til að undirbúa hugsanlegar aðgerðir. Þær eru einkum tvær, annars vegar að fresta kjörfundi þannig kjörstaðir yrðu í raun opnir í tvo daga, hins vegar að bíða með talningu.

Útlit er fyrir að veðrið verði verst í Norðausturkjördæmi og segir Ástríður að undanfarna daga hafi verið fundað reglulega með Vegagerð, Veðurstofu og formanni yfirkjörstjórnar kjördæmisins, en yfirkjörstjórnin tekur formlega ákvörðun ef fresta þarf kjörfundi eða talningu. Slíkt yrði gert í samráði við staðbundnar kjörstjórnir.

Ekkert sem segir hversu vont veðrið þarf að verða


Aðspurð svarar Ástríður að engir mælikvaðar eða fyrirmæli séu til um hversu vont veður þurfi að vera til að kjörfundi verði frestað. „Það er mat á hverjum stað á hverjum tíma. Það er enginn gátlisti eða neitt sem segir um hvernig eða hvenær matið fari fram. Þess vegna erum við að ræða saman dag eftir dag.

Við getum hugsað okkur að ef almannavarnir eða Veðurstofan gefa út tilmæli til fólks um að vera ekki á ferðinni, þá myndum við ekki fara gegn þeim. En það er á hreinu að við munum ekki leggja líf fólks í hættu á laugardag, hvort sem um ræðir kjósendur, starfsfólk á kjörstað eða það fólk sem flytur kjörgögn.“

Hvað gerist ef kjörfundi er frestað?


Nokkuð öruggt er að kjörstaðir opna á laugardagsmorgunn á tilsettum tíma. Hins vegar getur komið upp sú staða að kjósendur eigi í verulegum vandræðum með að komast á kjörstað og þá þarf mögulega að fresta kjörfundi. Þegar kjörfundi er frestað er kjörstaðnum lokað og kjörgögn læst inni. Þetta þýðir að ef kjörfundi væri frestað klukkan 14:00 á laugardag væri kosningu hætt, óháð því þótt kjörstaður hafi áður verið auglýstur opinn til klukkan 22:00.

Ástríður segir að ákvörðun um frestun verði trúlega tekin eins seint og mögulegt er því hún hafi talsverðar afleiðingar. Þess vegna verði beðið fram til laugardags til að sjá hvort spár gangi eftir. Ef kjörfundi er frestað þýðir það að hvergi á landinu má byrja að telja atkvæði, en aðeins er heimilt að byrja á því þegar fyrirséð er að takist að ljúka kjörfundi alls staðar á eðlilegan máta. „Við viljum forðast í lengstu lög að fresta kjörfundi,“ segir hún.

Hvenær yrðu kjörstaðir opnaðir aftur?


Æskilegt er að nýr opnunartími kjörstaða sé gefinn út um leið og kjörfundi er frestað. Veðrið á að ganga niður á sunnudagsmorgunn, en tíma getur tekið að opna vegi þannig kjósendur komist ferða sinna eftir byl. Vika er gefin til að ljúka kjörfundi. Ástríður segir einnig mikilvægt að sem flestir hjálpist að við að koma skilaboðum á framfæri við þessar kringumstæður, bæði um frestunina sjálfa og nýja opnun.

Verður hægt að telja atkvæði?


En þótt kjörfundur klárist er ekki þar með sagt að hægt verði að telja. Yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis verður á Akureyri og þar er talið. Hins vegar ef veðrið verður mjög vont geta vegir eins og Fagridalur, Fjarðarheiði, leiðir frá Vopnafjarðarheiði eða úr Neskaupstað lokast.

Yfirkjörstjórn kjördæmisins hefur heimild til að skipa allt að tvær undirkjörstjórnir sem mega telja. Ekki er víst að það dugi til ef ófært verður milli margra svæða í kjördæminu. Búið er að hafa samband við björgunarsveitir um að vera til taks til að koma kjörgögnum milli staða. Allajafna er flogið með atkvæði frá Egilsstöðum til Akureyrar en óvíst er hvort það verði hægt á laugardagskvöld. Þá er ljóst af samtölum Austurfréttar við fulltrúa kjörstjórna að þetta ákvæði þykir ekki henta því talning utankjörfundaratkvæða getur orðið flókin.

Má bíða með að telja í einu kjördæmi?


Þá er hins vegar eftir sá kostur að atkvæði í öðrum kjördæmi verði talin en beðið í Norðausturkjördæmi. Í höndum kjörstjórnar kjördæmisins væri hvort hún myndi byrja að telja atkvæði frá Akureyri eða Norðurlandi, ef ófært er austur, eða bíða þar til öll atkvæði eru komin í hús. Bið eftir tölum í Norðausturkjördæmi myndi þýða að ekki væri hægt að útdeila jöfnunarþingsætum en kjördæmakjörnir þingmenn annars staðar yrðu staðfestir.

Að lokum er það sá möguleiki sem margir Austfirðingar hafa nýtt í dag og síðustu daga, sem er að kjósa utankjörfundar til að draga úr öllu álagi á kjördag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.