10 ára starfsafmæli söngkvintettsins Olga Vocal Ensemble

Olga Vocal Ensemble, alþjóðlegur sönghópur, fagnar 10 ára starfsafmæli í ár og heldur tónleika víðs vegar um Ísland, í kvöld koma þeir fram á síðustu tónlistarstund sumarsins sem fer fram í Egilsstaðakirkju.

 

Olga Vocal Ensemble er alþjóðlegur söngkvintett sem stofnaður var 2013. Hópurinn samanstendur af 5 söngvurum, 3 búsettir í Hollandi og 2 á Íslandi. Olga Vocal Ensemble hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan sumarið 2013, að undanskildu árinu 2020.

Í tilefni 10 ára starfsafmælis halda þeir tónleika víðs vegar um landið. Þeir hófu ferð sína laugardaginn síðastliðinn á Siglufirði með tvenna tónleika, komu fram á Akureyri í gær en í kvöld ætla þeir að halda tónleika í Egilsstaðakirkju klukkan átta. „Við náðum að sofa vel í nótt og erum mjög hressir og spenntir fyrir kvöldinu, við vitum þó auðvitað af slysinu í gær og er hugur okkar hjá fólkinu á Austurlandi.“ Segir Pétur Oddbergur Heimisson, meðlimur sönghópsins.

Olga hefur haldið tónleika víða um heiminn, í Bandaríkjunum, Hollandi, Frakklandi, Belgíu, Spáni og á Íslandi. Gestir geta átt von á fjölbreyttri efnisskrá á tónleikum söngsveitarinnar segir Pétur „Þetta er í raun mjög fjölbreytt, allt frá klassískum lögum yfir í smá popp og jazz, Edith Piaf og Ég er kominn heim svo dæmi séu nefnd.“

Tónleikarnir í kvöld eru hluti af tónleikaröð í Egilsstaðakirkju. Tónlistarstundir hafa verið styrktar af Uppbyggingasjóði Austurlands, Múlaþingi, Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju og er aðgangur á tónleikana því ókeypis í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar