Sögur um sjóinn til Írlands
Berglind Ósk Agnarsdóttir sagnaþulur frá Fáskrúðsfirði tekur þessa dagana þátt í Ramelton sagnahátíðinni í Donegal á Írlandi. Hátíðin er að þessu sinni helguð hafinu. Berglind, sem starfar sem sagnaþulur, hlaut styrk frá Menningarráði Austurlands til fararinnar.Sagnahátíðin er liður í menningarsamstarfi Austurlands, Vesterålen í Norður-Noregi og Donegal, sem er á vesturströnd Írlands. Samstarf á milli sagnafólks þessara landa má rekja aftur til ársins 2008 þegar Berglind fór í boði Menningarráðs til Vesterålen á sagnahátíð þar.
Á haustdögum 2012 var síðan haldin sagnahátíð hér eystra bar yfirskriftina Sögueyjan 2012. Þá sótti sagnafólk frá Donegal og Vesterålen, með milligöngu Menningarráðs, Austurland heim.
Með Ramelton sagnahatíðinni á Írlandi verður hringnum lokað en yfirskriftin hátíðarinnar að þessu sinni er „3 edges of the same sea“ (3 hliðar á einu hafi).
Berglind Ósk hefur verið sagnaþulur í tuttugu ár. Hún er leikskólakennari að mennt og fljótlega eftir að hún hóf störf með börnum, fór hún að segja þeim sögur. Þannig uppgötvaði hún töfra sagnaheima og hefur haldið sig innan þeirra landamæra æ síðan.
Berglind hefur sótt námskeið í sagnalistinni til Danmerkur, Svíðþjóðar, Noregs og Skotlands. Þá hefur hún tekið þátt í allmörgum sagnahátíðum bæði innan lands og utan og haldið fjölmörg námskeið auk þess að standa fyrir eigin sagnaskemmtunum og sagnahátíðum.
Berglind sigraði keppnina „Besti sagnamaður Íslands“ árið 2011 og fór í kjölfarið til Turku í Finnlandi að keppa fyrir Íslands hönd í alþjóðlegri sagnaþulakeppni.
Ramelton sagnahátíðin stendur yfir frá 7.-12. nóvember.
Mynd: Berglind er lengst til hægri á myndinni, sem tekin er á góðri stundu.