Borgarafundur SÁÁ á Egilsstöðum í kvöld

thorarinn tyrfingssonSamtök áhugafólks um áfengisvandann standa í kvöld fyrir borgarafundi á Egilsstöðum. Fundurinn verður haldinn í Egilsstaðaskóla og hefst kl. 20:00.

Á fundinum verða flutt erindi í tali og tónum en fram koma Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi, Arnþór Jónsson formaður SÁÁ og Rúnar Freyr Gíslason leikari.


Fundurinn er liður í fundarherferð SÁÁ um landið þessar vikurnar þar sem áhersla er lögð á að efla tengsl SÁÁ við landsbyggðina. "SÁÁ er ekki lokaður klúbbur í Reykjavík, heldur þjónustuaðili fyrir alla landsmenn. Við viljum með þessum fundum undirstrika það", segir Rúnar Freyr Gíslason leikari og samskiptafulltrúi SÁÁ.

Á morgun funda síðan aðilar frá SÁÁ með bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. "Við hvetjum alla sem vilja kynna sér málin betur að koma á fundinn í kvöld. Ekki síst aðstandendur alkóhólista, en það er hópur sem við erum að reyna að sinna betur", segir Rúnar en síðustu helgi heimsótti SÁÁ Egilsstaði og stóð fyrir fjölskyldunámskeiði.

Á fundinum í kvöld verður farið yfir stöðu áfengis- og vímuefnavandans á Íslandi í dag og á eftir fá svo fundargestir að tjá sig og spyrja spurninga.

Fundurinn hefst sem fyrr segir kl. 20 og eru allir velkomnir.

Mynd: Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir flytur erindi á fundinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar