Augu hreindýrsins: Fyrsta íslenska heimildarmyndin um hreindýr í 70 ár
Ný íslensk heimildarmynd, Augu hreindýrsins, um hreindýr á Austurlandi verður frumsýnd í Sláturhúsinu á Egilsstöðum annað kvöld. Síðast var gerð heimildarmynd um íslensk hreindýr árið 1939.Gerð myndarinn hefur tekið þrjú ár og var dýrunum fylgt í gegnum allar árstíðir og mismunandi veðurfar í stórkostlegu landslagi Austurlands. Meðal annars náðust einstakar myndir af nýfæddum kálfum í Mjóafirði og skemmtilegar myndir af dýrum á fengitíma.
Saga íslensku hreindýranna er rakin í myndinni og lífsbaráttu þeirra lýst í harðri náttúru Íslands. Sagt er frá úthlutun veiðileyfa og farið er í veiðiferð.
Margir koma við sögu með fróðleik og reynslu og þar má nefna Skarphéðinn Þórisson, líffræðing og Jóhann G. Gunnarsson sem starfar hjá Umhverfisstofnun og stýrir hreindýraveiðunum.
Ásgeir Hvítaskáld gerir myndina en hann lærði kvikmyndagerð á kvikmyndaverkstæðinu í Kaupmannahöfn. Myndin er um klukkutíma löng. Sýningin hefst klukkan 20:00.