Hugmyndavinna kennd við ME: Erfiðast að lausirnar er ekki að finna í bókum
Listnámsbraut varð í haust að fullgildri braut til stúdentsprófs við Menntaskólann á Egilsstöðum. Meðal nýrra áfanga er hugmyndavinna þar sem nemendum er kennt að hugsa út fyrir kassann og finna eigin lausnir á viðfangsefnum sínum.Hópurinn kallar sig LÍFFÍFL sem stendur fyrir List í ferli og ferli í list en Agla Stefánsdóttir, fatahönnuður, kennir áfangann. Markmið hans er að nemendur kynnist skapandi ferli og fari í gegnum nokkur slík ferli sjálfir.
„Það sem reynist þeim kannski hvað erfiðast er að lausnirnar er ekki að finna í bókum eða á netinu. Þau læra að þau ein búa yfir réttu svörunum í sinni eigin listsköpun. Til að vel takist til verða þau að hafa trú á sér, vera gagnrýnin á eigin vinnu og deila sinni sýn á tiltekið viðfangsefni.
En það er akkúrat þetta sem kveikir í þeim og fær þau til að vilja gera vel. Ég held að þau verði oft hissa á hversu úrræðagóð og sniðug þau geta verið þegar þau setja sig í réttar -hugmyndavinnu- stellingar," segir Agla.
Nemendurnir læra aðferðafræði og verkferla sem þau prófa sig áfram með á eigin skinni við úrlausnir á fimm verkefnum. Meðal þess sem nemendur þjálfa er hugstormun, gagnrýnin hugsun, tilraunir og athuganir.
Nemendurnir eru afar ólíkir innbyrðis, með ólíka hæfileika og áhugasvið. Sumir stefna á leiklistarnám eða leikskólakennaranám, aðrir á hönnun eða kvikmyndagerð. Mjög margir eru enn óráðnir. Aldurinn er frá 16 upp í 21 árs svo um afar ólík sjónarmið og reynslu er að ræða. Í flestum verkefnanna geta þeir sniðið ferlin og lokaverkin að sínu áhugasviði.
Þetta er í fyrsta skipti sem áfanginn HUGMYNDAVINNA er kenndur við skólann sem hluti af áfanga framboði listnámsbrautar. Markmiðið er að nemendur kynnist skapandi ferli og fari í gegnum nokkur slík ferli sjálf.
Í lok annar er miðað við að nemendur verði orðnir þjálfaðir í að tala um hugmyndir, greina þær, vega og meta og myndgera þær svo aðrir skilji. Þeim er einnig kenndur „orðaforði sköpunar" sem gerir þeim kleift að tala á málefnalegan hátt um listir og hönnun.
Tveir ungir útskrifaðir hönnuðir og einn doktorsnemi; allir fyrrum nemendur í ME, hafa snúið heim í Hérað til að aðstoða Ólöfu Björk Bragadóttur, brautarstjóra listnámsbrautar við uppbygginguna. Þetta eru þær Sigríður Lára Sigurjónsdóttir doktorsnemi í sviðslistafræðum, sem kennir sviðslistir, Steinrún Ótta Stefánsdóttir vöruhönnuður, sem kennir hönnun auk Öglu.
Úrlausnir nemendanna á verkefnum áfangans ásamt öðrum upplýsingum má nálgast á: http://cargocollective.com/hugmyndavinna