Toronto Star: Ævintýrin eru á Austurlandi

dyrfjoll3 webÆvintýrin finnast á Austurlandi er niðurstaða ferðapenna útbreiddasta dagblaðs Kanada sem kom austur á vegum Meet the Locals verkefnisins. Heimamenn eru sagðir hlýlegir og fyndnir og svæðið bjóði ferðamönnum upp á fjölbreytta afþreyingu.

„Fyrirtækið Tanni Travel býður þér að hitta heimamenn. Þú verður þakklátur fyrir það boð. Íslendingar eru bæði vingjarnlegir og afar fyndnir. Flestir tala ensku og hafa klikkaðan húmor á báðum tungumálum. Fúlir íbúar á norðurhjara? Ekki beint."

Þetta skrifar Bill Taylor í ferðapistli í Toronto Star, mest lesna dagblaði Kanada. Hann heimsótti Austurland nýverið á vegum landkynningar átaksins Inspired by Iceland.

Þar segir hann bæði frá ferðum sínum á hestbaki og fjórum hjólum, sem hann segir vissulega betri þar sem fararskjótinn hafi ekki sjálfstæða hugsun og horfi ekki á knapann og hristi hausinn yfir vitleysunni í honum.

Bill segir hægt að upplifa margt á fáum dögum og allt sé innan skamms aksturs frá Egilsstöðum þar sem flugvöllurinn sé. Hann hvetur lesendur sérstaklega til að hafa augun hjá sér þegar þeir keyri framhjá Lagarfljótinu því þeir gætu komið auga á skrímslið sem þar býr.

Menn geti ýmist skíðað niður firðina eða nýtt sér þær fjölbreyttu gönguleiðir sem í boði eru. „Sum lönd með óstöðugu veðurfari stæra sig af því að menn geti upplifað allar árstíðirnar fjórar á einum degi. Þú gætir upplifað þær allar á einni klukkustund á leiðinni í gegnum fjallaskarð."

Reyðarfjörður er nefnt sem dæmi um falda perlu með undraverðu stríðsárasafni og fimm fjöllum sem bjóði upp á erfiðar göngur en stórkostlegt útsýni.

Bill fór einnig í fjallaferð og sá hreindýrahjörð í nágrenni Snæfells. Þeir sem ekki sjái dýrin eigi alltaf möguleika á að smakka kjötið af þeim.

Hann hrósar austfirskri matargerð sem sé jafn ævintýraleg og önnur afþreying. Boðið sé upp á reykt lambakjöt, rjúpu og lunda. Næsta áskorun sé hákarl og brennivín. „Ég drekk Brennivínið – en ekki of mikið af því – en ekki hákarlinn þótt hann sé sagður mun skárri en lýsingarnar gefi til kynna. Það er nauðsynlegt að hann sé það."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar