Aðventa lesin á sunnudaginn
Aðventa Gunnars Gunnarssonar, sagan um Benedikt og svaðilfarir hans á Mývatnsöræfum, verður lesin að venju þriðja sunnudag í aðventu á Skriðuklaustri. Að þessu sinni verður hún lesin á fjórum stöðum: í Rússlandi, Þýskalandi, Reykjavík og á Skriðuklaustri.Að þessu sinni er það Svanhildur Óskarsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun, sem les söguna á Klaustri og hefst lesturinn kl. 14.00 í skrifstofu skáldsins. Boðið verður upp á kaffi og piparkökur en lestri sögunnar lýkur um kl. 16.30. Allir velkomnir og tilvalið að slaka á í amstri jólaundirbúningsins og njóta hinnar sígildu sögu Gunnars.
Skriðuklaustur er ekki eini staðurinn sem Aðventa verður lesin á næsta sunnudag. Hjá Rithöfundasambandi Íslands, í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík lesa rithöfundahjónin Olga Guðrún Árnadóttir og Guðmundur Ólafsson söguna og hefja sinn lestur kl. 13.30.
Þess má geta að sagan verður lesin á rússnesku í íslenska sendiráðinu í Moskvu laugardaginn 14. des. og í sendiráðinu í Berlín var hún lesin þriðja sinni á þýsku 1. desember.