Áramótabrennur færðar framar á kvöldið

flugeldar jokulsarlonFjölmörg austfirsk sveitarfélög standa fyrir áramótabrennum á morgun. Á Reyðarfirði og Djúpavogi verða brennurnar óvenju snemma í ár. Veðurspáin býður ekki upp á gott flugeldaveður.

Fyrsta brennan verður á Egilsstaðanesi en þar verður kveikt í klukkan 16:30 og flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Héraðs hefst klukkan 17:00. Klukkan 16:00 verður hátíðarguðsþjónusta í Egilsstaðakirkju og er gert ráð fyrir að henni verði lokið um svipað leyti og brennan hefst.

Á Djúpavogi verður brennan fyrr en áður og hefst klukkan 16:45 á Hermannastekknum. Björgunarsveitin Bára stendur svo fyrir flugeldasýningu.

Á sama tíma hefst brenna á Hrúteyri í Reyðarfirði.

Á Eskifirði verður kveikt í brennu sunnan fjarðar við gömlu steypustöðina klukkan 20:00 og á Fáskrúðsfirði við austurenda gömlu flugbrautarinnar um leið.

Á Norðfirði og Stöðvarfirði verður kveikt í brennunum klukkan 20:30. Brennan á Norðfirði verður austan snjóflóðavarnagarða, ofan byggðar og á Stöðvarfirði á Birgisnesi.

Brenna Breiðdælinga hefst á sama tíma við Þórðarhvamm. Björgunarsveitin Eining verður þar með flugeldasýningu.

Spáð er norðaustan átt og slydduél annað kvöld svo ekki er útlit fyrir að vel viðri til flugeldasýninga á Austfjörðum á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar