Spilaði með Grant hjá Letterman: Flogið á milli landa fyrir eitt lag - Myndband
Austfirski trommarinn Kristinn Snær Agnarsson kom fram í sjónvarpsþætti David Letterman í Bandaríkjunum í gærkvöld í hljómsveit John Grant. Kristinn og félagar hans í hljómsveitinn flugu sérstaklega vestur um haf til að taka upp eitt lag fyrir þáttinn.„Þetta var svakalega gaman. Andrúmsloftið var mjög afslappað enda allir sem að þættinum koma fagmenn fram í fingurgóma og gera þetta á hverjum degi," sagði Kristinn í samtali við Austurfrétt.
Þáttur David Letterman er sendur út frá New York á CBS sjónvarpsstöðinni á hverju kvöldi. Þátturinn hefur verið í gangi í rúm 20 ár og stutt í að þáttur númer 4000 í röðinni verður sendur út. Áætlað er að fjórar milljónir manna horfi á hvern þátt.
„Hann virðist hress og skemmtilegur náungi, örlítinn stríðinn," segir Kristinn um hin stuttu kynni sín af þáttastjórnandanum.
Grant og hljómsveit hans flugu frá Íslandi í fyrradag og halda heim í kvöld en tilgangur ferðarinnar var að spila lagið GMF í þætti Lettermans. „Það er gríðarlegt áhorf á þessa þætti og því er þetta mikil auglýsing og frábært tækifæri fyrir John," segir Kristinn um ferðina.
Kristinn hefur verið á ferðalagi með Grant um heiminn meira og minna síðan í mars í fyrra. Stoppið á Íslandi verður ekki langt því í næstu viku verður haldið til Ástralíu.