Borgfirðingur í The Biggest Loser: Ekkert vafamál að ég verð frægari en Magni!

sigurdur jakobsson loser1 webNjarðvíkingurinn Sigurður Jakobsson er fulltrúi Austfirðinga í þáttunum The Biggest Loser Ísland sem hefja göngu sína á SkjáEinum síðar í mánuðinum. Hann segist hafa breytt matarræði sínu til frambúðar eftir þátttökuna í þáttunum sem hann segir hafa verið forréttindi.

„Ég ákvað að skrá mig því ég hef alltaf verið of þungur. Ég ákvað að prófa þetta og það gekk líka svona ljómandi vel," segir Sigurður Jakobsson, tæplega tvítugur nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Hann segist alltaf hafa litið á sig sem „feitan einstakling." Fyrstu árin í menntaskóla hafi hann vegið 120-125 kíló. Sumarið 2012 hafi hann unnið á tveimur stöðum og ekki gætt að sér.

„Ég hreyfði mig lítið sem ekkert og passaði heldur ekki matarræðið. Það sumar þyngdist ég um tuttugu kíló."

Sigurður segist ekki hafa fundið fyrir fordómum fyrir að vera feitur. Þyngdin hafi hins vegar heft líkamlega getu.

Tökur á þáttunum stóðu í tíu vikur og fóru fram á Ásbrú. Sigurður segir það hafa verið „þvílík forréttindi" að taka þátt. Hann náði góðum árangri á þeim tíma sem hann var í tökum og stefnir á að halda áfram á þeirri braut.

„Ég er orðinn mun meðvitaðri um hvað ég læt ofan í mér og sneiði hjá ýmsu til að halda mér áfram á beinu brautinni. Ég missti mig aðeins um jólin en kominn aftur á rétt ról og sé ekki fram á að neitt stoppi mig í því markmiði að léttast."

Keppendur einangraðir frá umheiminum

The Biggest Loser Ísland þættirnir byggja á þáttum sem hófu göngu sína í Bandaríkjunum árið 2004 en sambærilegar keppnir hafa verið haldnar í meira en 25 löndum. Hvert land aðlagar þættina að sínu umhverfi en þeir eiga það sameiginlegt að tefla fram þátttakendum sem teljast of þungir og keppast um að léttast sem mest, annað hvort hlutfallslega eða í kílóum talið.

Tæplega 1300 skráðu sig til leiks en tólf voru valdir til keppni. Hérlendis er það sá sem missir mest hlutfallslega sem vinnur til veglegra verðlauna. Keppendur þurfa að standast ýmsar freistingar á leiðinni og líkt og í fleiri sjónvarpsþáttum eru þeir sem standa sig síst sendir heim einn af öðrum.

Keppendur eru algjörlega einangraðir á meðan tökum stendur og settir í stífar áætlanir um matarræði og líkamsrækt. Þeir fá heldur ekki aðgang að sjónvarpi, blöðum, neti, síma eða útvarpi á meðan þeim stendur en Sigurður segir það hafa verið „minnsta málið."

Gagnrýnendur þáttanna hafa varað við að takmarkið að léttast sem mest sem hraðast geti verið heilsuspillandi. Þá hefur farið misjöfnum sögum af gangi keppenda eftir að keppni lýkur.

Vel passað upp á okkur á Ásbrú

Sigurður ber starfsfólki The Biggest Loser Ísland vel söguna. „Það var passað vel upp á okkur á meðan tökum stóð og komið mjög vel fram við okkur á Ásbrú. Ég við vorum þar ekki nema í tíu vikur í keppnisumhverfinu og ég held að það geti ekki skaðað mann.

Ég óttast náttúrulega að þyngjast aftur en stefni á að léttast áfram. Ég er náttúrulega í keppni fram í apríl. Eftir að maður kemur heim fer maður að léttast á eðlilegum hraða."

Sigurður segist hafa fengið mikinn stuðning frá vinum, fjölskyldu og nágrönnum en hann kemur frá Borgarfirði eystri. Þeir eru ekki óvanir stjörnum úr raunveruleikasjónvarpsþáttum því skemmst er að minnast glæsilegrar framgöngu Magna Ásgeirssonar í Rockstar þáttunum á sínum tíma.

„Borgfirðingar hafa náttúrulega lengi verið taldir einstaklega sérkennilegir og er það ekki það sem þarf í raunveruleikasjónvarp? Það er samt ekkert vafamál að ég verð frægari en Magni!"

Tvær vikur eru enn í að þættirnir hefji göngu sína en sérstök forsýning verður á fyrsta þættinum á Kaffi Egilsstöðum þriðjudaginn 14. janúar klukkan 20:30. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar