Heimsþekktir aðalleikarar í Fortitude: Leitað að austfirskum aukaleikurum
Heimsþekktir leikarar fara með hlutverk í bresku spennuþáttunum Fortitude sem teknir verða upp í Fjarðabyggð. Framleiðslu fyrirtækið Pegasus leitar í næstu viku að aukaleikurum en gert er ráð fyrir að tökur á þáttunum hefjist í lok janúar.Staðfest hefur verið að Michael Gambon, Sofie Gråböl og Stanley Tucci fari með hlutverk í þáttunum. Gambon lék prófessor Dumbledore í kvikmyndunum um Harry Potter og Gråbol hefur vakið athygli í íslensku lopapeysunni í aðalhlutverkinu í dönsku glæpaþáttunum Glæpnum.
Tucci hefur leikið í fjölda Hollívúdd-mynda en hann hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu sem besti karlleikari í aukahlutverki fyrir leik sinn í „Svo fögur bein". Þá lék hann lækninn Kevin Moratti í tveimur þáttaröðum af Bráðavaktinni.
„Undirbúningur er í hámarki og tökur hefjast í lok mánaðarins. Tökustaðir eru aðallega á Reyðarfirði og Eskifirði," sagði Einar Sveinn Þórðarson, markaðsstjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus í samtali við Austurfrétt í dag.
„Tökur munu standa í mánuð þetta fyrsta tímabil en svo koma þeir tvisvar aftur og mynda á öðrum tímabilum alveg fram í júní."
Fortitude þættirnir gerast í þorpi á norðurhveli jarðar sem eru afar friðsamt þar til morð er framið þar. Rannsóknarlögreglumaður er sendur úr höfuðborginni til aðstoðar lögreglustjóra staðarins en þeir hafa afar ólíka sýn á lífið, tilveruna og rannsókn málsins. Gerðir verða þrettán klukkustundar langir þættir fyrir Sky sjónvarpsstöðina.
Einar Sveinn segir íbúa og yfirvöld hafa sýnt kvikmyndagerðarfólkinu greiðvikni og hjálpsemi. „Það er sönn ánægja að vinna á svæðinu og notalegt að vera á Austfjörðum.
Pegasus leitar að aukaleikurum á öllum aldrei í næstu viku en tekið verður á móti áhugasömum í vesturenda gamla frystihússins á Reyðarfirði eftir helgi.
Tekið verður á móti aukaleikurum á þessum tímum:
mánudagur 13. janúar kl. 12.00-20.00
þriðjudagur 14. janúar kl. 10.00-20.00
miðvikudag 15. janúar kl. 10.00-20.00
Kynningarmynd fyrir Fortitude. Mynd: Starz