Tvíburar í Gettu betur liði VA: Gott að vita hvað hitt veit
Verkmenntaskóli Austurlands komst í gær í aðra umferð spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur með frábærum 20-18 sigri á Menntaskólanum við Sund. Tvíburar mynda kjölfestuna í liði VA.VA var undir eftir hraðaspurningarnar í gær 14-16 en snéri dæminu sér í vil í bjölluspurningunum. MS átti möguleika á að jafna í 19-19 og höfðu svarréttinn í síðustu spurningu, sem var tóndæmi, en virtust hreinlega fara á taugum.
Lið VA skipa þau Sigrún Hilmarsdóttir, Katrín Hulda Gunnarsdóttir og Smári Björn Gunnarsson en þau tvö síðarnefndu eru tvíburar. Foreldrar þeirra eru Gunnar Ólafsson, kennari og Guðrún Jónsdóttir, kennari og segjast tvíburarnir lengi hafa haft áhuga á spurningakeppnum.
„Það er kostur að þekkjast vel því við vitum hvað hitt veit," svara þau aðspurð um hvort kostur sé að hafa systkini sitt í liðinu.
Liðið þekkist reyndar vel. Öll eru uppalin í Neskaupstað og voru saman í bekk í Nesskóla og nú Verkmenntaskólanum þaðan sem þau eiga að útskrifast í vor. „Við erum búin að vera í þessu síðan við komum í skólann," segir Sigrún sem keppti þó sína fyrstu keppni í gær.
Þau voru ánægð með keppnina að henni lokinni í gær. „Spurningarnar voru léttari en við bjuggumst við. Við vorum stressuð fyrir nýju dómurunum. Við fundum það hins vegar strax í hraðanum að spurningarnar voru sanngjarnar og það gaf okkur sjálfstraust til að halda áfram."
Óskar Þorsteinsson, þjálfari VA, náði líka í gær að hefna ófara en hann var í liði VA sem tapaði í undanúrslitum fyrir MS árið 2002. „Það er frábært að hafa þjálfara með góða reynslu. Síðan er hann líka lifandi og á tánum fyrir utan stúdíóið á meðan við keppum. Það er fjörugt að fylgjast með honum."
Lið Menntaskólans á Egilsstöðum mætir Fjölbrautaskóla Suðurnesja á sunnudaginn eftir viku. Að þeirri keppni lokinni verður dregið í annarri umferð.
Meistarar Fjarðabyggðar eru úr leik í Útsvari eftir að hafa tapað 58-49 gegn Grindavík á föstudagskvöld. Þar með eru austfirsku liðin þrjú, sem tóku þátt í ár, úr leik en Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður höfðu tapað áður..
Sigrún, Katrín Hulda og Smári Björn í hljóðveri fyrir keppnina í gær. Mynd: Austurfrétt/Gunnar
Meistarar Fjarðabyggðar eru úr leik í Útsvari eftir að hafa tapað 58-49 gegn Grindavík á föstudagskvöld. Þar með eru austfirsku liðin þrjú, sem tóku þátt í ár, úr leik en Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður höfðu tapað áður..
Sigrún, Katrín Hulda og Smári Björn í hljóðveri fyrir keppnina í gær. Mynd: Austurfrétt/Gunnar