Aðsóknarmet slegið á Austurfrétt

AusturfrettAðsóknarmet var slegið á Austurfrétt í síðustu viku samkvæmt tölum frá samræmdri vefmælingu. Umferð um vefinn hefur aukist jafnt og þétt síðustu mánuði.

Rúmlega 9.300 notendur (stakar IP-tölur) heimsóttu vefinn í síðustu viku en þetta er fyrsta skipti síðan þær teljast yfir átta þúsund. Heimsóknirnar segja þó ekki alla söguna.

Rúmlega 1.900 manns heimsóttu vefinn að meðaltali á hverjum degi en eru að jafnaði í kringum 1.500. Þá voru flettingar 67.866 sem segir að notendur skoða fleiri síður á vefnum í hverri ferð og staldra þá lengur við.

Miðað við tölur vefmælingarinnar er aðsóknartíðni á Austurfrétt orðin svipuð og á aðra héraðsfréttamiðla, svo sem Skessuhorn á Vesturlandi og Vikudag á Akureyri, þrátt fyrir að þeir miðlar séu mun eldri.

„Við höfum bætt í vinnuna við Austurfrétt jafnt og þétt síðustu mánuði og það skilar þessum lestrartölum," segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar.

„Í hreinskilni sagt þá hefur lesturinn aukist hraðar en við reiknuðum með og við erum afar ánægðir með það. Þær tölur sem við sjáum gera okkur kleift að fullyrða að við séum útbreiddasti fjölmiðill Austurlands."

Af vinsælum fréttum í síðustu viku má nefna frétt um ráðningu Péturs Heimissonar sem yfirlæknis HSA, styrk sem Austurför hlaut úr Tækniþróunarsjóði og umræður um óánægju nágranna með áform um að breyta gömlu Olís-stöðinni í Neskaupstað í gistihús.

Aðsendar greinar voru einnig vinsælar en hugmyndir Þrastar Jónssonar um útdeilingu mögulegs olíugróða Íslendinga fóru víða og sömuleiðis kunnu margir að meta frásögn Ásdísar Helgu Bjarnadóttur af fyrstu dögum sínum sem íbúi á Egilsstöðum.

„Við erum þakklát fyrir að Austfirðingar vilja leggja orð í belg, bæði með greinum og ábendingum um fréttir. Hugmyndirnar eru það margar að við komumst ekki alltaf yfir þær, alla veganna ekki strax. Þær eru hins vegar á bakvið eyrun á okkur.

Við erum alltaf að leita leiða til að þróa vefinn enn frekar. Fyrir jól byrjuðum við að taka upp sjónvarpsfréttir undir nafni Austurvarps. Þær hafa mælst vel fyrir enda einvala lið sem vinnur þær með okkur."

Ábendingar um fréttir og greinar má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja í síma 848-1981.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar